Erlent

Allir þeir látnu voru þýskir ferðamenn

Atli Ísleifsson skrifar
Slysið var í bænum Canico á austurströnd Madeira.
Slysið var í bænum Canico á austurströnd Madeira. AP
Allir þeir 29 sem fórust í rútuslysinu á portúgölsku eyjunni Madeira voru þýskir ferðamenn. Þetta staðfesti Marcelo Rebelo de Sousa, forseti Portúgals, í kvöld. 

Forsetinn lýsti yfir sorg sinni í sjónvarpsávarpi og sagði hann að hugur allra Portúgala væri hjá aðstandendum fórnarlambanna.

RTP greinir frá því að sautján karlmenn hafi látið lífið og ellefu konur. Að auki slösuðust 27 manns, en fastlega er búist við að tala látinna komi til með að hækka.

Alls voru 56 manns í rútunni sem valt út af veginum í bænum Canico á austurströnd Madeira. Virðist sem að bílstjórinn hafi misst stjórn á rútunni á gatnamótum og ekið út af veginum.

Madeira er að finna um 940 kílómetrum vestur af Marokkó og sækja á annað milljón ferðamenn eyjaklasann heim á ári hverju.

Antonio Costa, forsætisráðherra Portúgals, sendi Angelu Merkel Þýskalandskanslara samúðarkveðjur á Twitter fyrr í kvöld.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×