Erlent

Mueller-skýrslan kynnt í dag

Andri Eysteinsson skrifar
William Barr, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna.
William Barr, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna. AP/Andrew Harnik
Mueller-skýrslan, afrakstur vinnu Robert Mueller, sérstaks rannsakanda dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna, og teymis hans um afskipti Rússa af forsetakosningunum í Bandaríkjunum 2016 og hugsanleg tengsl við framboð Donald Trump, kemur verður birt í dag. Skýrslan verður birt á blaðamannafundi sem dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, William Barr, hefur boðað til.

Blaðamannafundurinn hefst klukkan 13:30 að íslenskum tíma, 9:30 að staðartíma í Washington, og hefur tímasetning fundarins verið gagnrýnd af fjölmiðlum vestra. Blaðamenn vestan hafs óttast að þeir geti ekki kynnt sér efni skýrslunnar og spurt gagnrýnna spurninga um innihald hennar eins og fyrirkomulagið verður.

Eina sem vitað erum niðurstöður Mueller-rannsóknarinnar hingað til er efni fjögurra blaðsíðna bréfs sem Barr, dómsmálaráðherra, skrifaði Bandaríkjaþingi í mars. Í útdrætti Barr kom fram að Mueller hefði ekki sýnt fram á að framboð Trump hefði lagt á ráðin með Rússum um að hafa áhrif á kosningarnar 2016.

Mueller hafði hins vegar ekki komist að niðurstöðu um hvort forsetinn hefði gerst sekur um að hindra framgang réttvísinnar en Barr greindi frá því að ekki væri ástæða til þess að ákæra forsetann fyrir að hindra framgang réttvísinnar.

Bandamenn Trump, og forsetinn sjálfur, hafa sagt skýrsluna hreinsa nafn forsetans af öllum ásökunum. Andstæðingar hans eru þó ekki alveg á þeim buxunum og hafa skorað á Barr að birta skýrsluna alveg óritskoðaða.

Sýnt verður frá blaðamannafundinum í beinni útsendingu á Vísi og greint frá helstu atriðum hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×