Fótbolti

Fimma á hliðarlínunni endaði í augnmeiðslum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Leikmenn Degerfors fagna sigri
Leikmenn Degerfors fagna sigri vísir/getty
Það er martröð hvers knattspyrnuþjálfara að þurfa að taka mann sem var settur inn á sem varamaður út af vellinum aftur. Stefan Jacobsson, þjálfari Degerfors í sænsku B-deildinni, hélt hann hefði lent ansi illa í þeirri martröð.

Á þriðjudaginn mætti Degerfors Östers í sænsku Superettan. Í seinni hálfleik ætlaði Jacobsson að skipta Axel Lindahl út af og setja Mattias Özgun inn á í staðinn.

Lindhal lyfti höndum og gaf Özgun fimmu, eða reyndar tíu þar sem um báðar hendur var að ræða, þegar þeir mættust á hliðarlínunni. Það gekk hins vegar ekki alveg nógu vel því Lindhal potaði óvart fingri í augað á Özgun.

Özgun hélt áfram skokki sínu inn á völlinn en hélt um andlitið og nokkrum sekúndum seinna þurfti hann að fara af velli og fá aðhlynningu. Sem betur fer fyrir Jacobsson þjálfara náði læknirinn hins vegar að koma Özgun í samt lag og hann fór loks inn á völlinn nokkrum mínútum seinna.

„Ég hélt þetta myndi lagast strax en ég gat ekki séð neitt. Ég tók mér nokkrar sekúndur til þess að sjá hvort þetta lagaðist en það gerði það ekki svo ég þurfti að fara út af,“ sagði Özgun við Fotbollskanalen.

„Það hlógu allir að mér í búningsklefanum eftir leikinn.“

Leiknum lauk með 1-1 jafntefli og Degerfors er ósigrað eftir fyrstu þrjá leikina í deildinni.

Myndband af atvikinu má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×