United varð af mikilvægum stigum og Fulham er fallið

Anton Ingi Leifsson skrifar
NIðurlútnir leikmenn United.
NIðurlútnir leikmenn United. vísir/getty
Manchester United tapaði í annað skipti á skömmum tíma gegn Wolves er liðið tapaði 2-1 gegn Úlfunum á útivelli í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.

United byrjaði af miklum krafti og það var Skotinn Scott McTominay sem kom þeim yfir með þrumuskoti á þrettándu mínútu. Þetta var fyrsta mark hans fyrir Manchester-liðið í 25 leikjum.

Gestirnir fengu heldur betur tækifæri til þess að tvöfalda forystuna en Wolves jafnaði hins vegar metin á 25. mínútu. Fred missti þá boltann á stórhættulegum stað, Raul Jimenez kom boltanum á Diogo Jota sem skoraði. 1-1 í hálfleik.

Það skánaði ekki ástandið fyrir United er Ashley Young fékk tvö gul spjöld með fimm mínútna millibili í upphafi síðari hálfleiks og hann var sendur í sturtu á 57. mínútu. Hundraðasta rauða spjaldið sem Mike Dean gefur í ensku úrvalsdeildinni.

Sigurmarkið kom svo á 77. mínútu. Eftir fyrirgjöf var darraðadans í teig United sem David de Gea þorði ekki að koma út í af fullum krafti. Það endaði með því að Chris Smalling varð fyrir því óláni að moka boltanum í eigið net. Lokatölur 2-1 sigur Úlfanna.

United er því áfram í fimmta sætinu en þeir eru með 61 stig, jafn mörg stig og Tottenham sem er í fjórða sætinu, og stigi meira en Chelsea sem er í fimmta sætinu. Bæði Tottenham og Chelsea eiga leik til góða. Wolves er í sjöunda sætinu með 47 stig.

Fulham er fallið úr deild þeirra bestu eftir 4-1 skell gegn Watford á útivelli í kvöld. Abdoulaye Doucoure kom Watford yfir á 23. mínútu en ellefu mínútum síðar jafnaði Ryan Babel metin.

Það var hins vegar veisla hjá Watford í síðari hálfleik. Will Hughes, Troy Deeney og Kiko Femenia skoruðu allir sitt hvort markið og yfirburðar sigur Watford.

Fulham er því fallið niður í B-deildina eftir eitt ár í deild þeirra bestu en Watford er í áttunda sætinu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira