Innlent

Setja upp níutíu hleðslustöðvar fyrir rafbíla í Reykjavík

Kjartan Kjartansson skrifar
Byggðir verða upp innviðir fyrir hleðslubúnað rafbíla á níutíu stöðum í Reykjavík á næstu þremur árum samkvæmt samkomulagi sem Reykjavíkurborg, Orkuveita Reykjavíkur og Veitur skrifuðu undir í dag. Þá verður komið á fót 120 milljóna króna sjóði sem á að styrkja húsfélög til að koma upp hleðslubúnaði.

Þrjátíu hleðslustöðvar verða settar upp við starfsstöðvar Reykjavíkurborgar eða í næsta nágrenni þeirra. Þá verða lagðar lagnir að hleðslubúnaði og hann settur upp á sextíu stöðum á borgarlandi á næstu þremur ár, tuttugu á ári. Markmiðið er að þjóna íbúum sem ekki hafa bílastæði á eigin lóð, að því er segir í sameiginlegri tilkynningu vegna samkomulagsins.

Íbúum verður gefinn kostur á að hafa áhrif á staðsetningar síðarnefndu stöðvanna með því að senda inn tillögur en Reykjavíkurborg og Veitur munu velja endanlegar staðsetningar í samræmi við fjölda íbúa og önnur hagkvæmnissjónarmið.

Hleðslustæðin eiga að vera vel merkt og eingöngu ætluð rafbílum. Uppsetning og rekstur hleðslubúnaðarins verður boðinn út og er gert ráð fyrir að hleðslan verði seld.

OR og borgaryfirvöld ætlað að leggja tuttugu milljónir hvor í sjóð á ári í þrjú ár. Úr honum verður úthlutað styrkjum til húsfélaga íbúðarhúsa til að koma upp hleðslubúnaði. Auglýsa á eftir umsóknum og úthlutunarreglur verða kynntar síðar. Gert er ráð fyrir að hámarksstyrkur verði 1,5 milljónir króna og að hámarki tveir þriðju hlutar kostnaðar við að koma hleðslunum upp

Kort sem sýnir staðsetningu þrjátíu hleðslustöðva sem koma á upp við starfsstöðvar borgarinnar.Reykjavíkurborg/OR/Veitur



Fleiri fréttir

Sjá meira


×