Fótbolti

Stjóri Sevilla með hvítblæði

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Caparros er ekki af baki dottinn þrátt fyrir veikindin.
Caparros er ekki af baki dottinn þrátt fyrir veikindin. vísir/getty
Eftir 0-2 sigur á Real Valladolid í dag greindi Joaquin Caparros, knattspyrnustjóri Sevilla, frá því að hann væri með hvítblæði.

Caparros tók við Sevilla í síðasta mánuði og gerði samning út tímabilið. Hann heldur áfram sínu starfi þrátt fyrir veikindin.

Þetta er annað tímabilið í röð sem stjóri Sevilla greinist með krabbamein. Argentínumaðurinn Eduardo Berizzo greindist með krabbamein í blöðruhálskirtli í nóvember 2017. Mánuði síðar, eftir að hafa gengist undir aðgerð, var hann rekinn.

Caparros tók einnig við Sevilla til bráðabirgða undir lok síðasta tímabils. Hann var ráðinn yfirmaður knattspyrnumála hjá félaginu í sumar en klæddi sig aftur í þjálfaraúlpuna þegar Pablo Machín var látinn taka pokann sinn.

Hinn 63 ára Caparros var áður stjóri Sevilla á árunum 2000-05. Hann hefur einnig stýrt liðum á borð við Villarreal, Deportivo La Coruna og Mallorca á löngum þjálfaraferli.

Sevilla er í 5. sæti spænsku úrvalsdeildarinnar, einu stigi frá Meistaradeildarsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×