Innlent

Drógu laun af starfsmönnum vegna verkfallsaðgerða þó þeir væru ekki á vakt

Birgir Olgeirsson skrifar
Reykjavík Natura er eitt af hótelum Icelandair Hotels.
Reykjavík Natura er eitt af hótelum Icelandair Hotels. Vísir/Vilhelm

Icelandair Hotels dró laun af þeim starfsmönnum sem eru félagsmenn í Eflingu vegna verkfallsaðgerða stéttarfélagsins þó þeir hefðu ekki verið á vakt umrædda verkfallsdaga. 

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, segir það óskiljanlega ákvörðun hjá fyrirtækinu. Hann segir starfsmenn hótelsins hafa leitað til Eflingar vegna málsins. 

„Fólk er algjörlega miður sín,“ segir Viðar.

Um er að ræða verkfallsaðgerðir sem stóðu yfir dagana 8. mars og 22. mars síðastliðinn. Viðar segir félagsmenn Eflingar sem starfa hjá Icelandair Hotels hafi framvísað launaseðlum þar sem ýmist var búið að draga af þeim laun fyrir einn eða tvo daga. 

„Þetta er ógeðslegt,“ segir Viðar.

Viðar segir Eflingu ætla að gera kröfu á Icelandair Hotels um að greiða starfsmönnunum sem ekki voru á vakt laun, ef ekki verður orðið við henni verður farið með málið fyrir dóm.

Frá verkfallsaðgerðum hótelstarfsmanna í mars. Vísir/Vilhelm

Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandair Hotels, segir það rétt að ekki voru greidd laun fyrir verkfallsdaga starfsmanna sem tilheyra þeim stéttarfélögum sem voru í verkfalli. 

„Enda búið að staðfesta að þeirra hálfu að félagsmenn í verkfalli gætu sótt launagreiðslur fyrir sömu daga í verkfallssjóði félaganna.“

Viðar segir að þeir félagsmenn stéttarfélaganna sem voru á vakt á Icelandair Hotels þann dag sem verkfallsaðgerðirnar áttu sér stað eigi að fá launagreiðslur úr verkfallssjóði félaganna. Það gildi hins vegar ekki um þá starfsmenn sem ekki voru á vakt þessa daga og lögðu því ekki niður störf. 

Hann segir það því ekki rétta túlkun hjá Icelandair Hotels að hægt sé að draga laun af þeim starfsmönnum sem ekki voru á vakt dagana sem verkfallsaðgerðir fóru fram. Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.