Innlent

Boðið upp í lengstu lyftuferð á landinu

Kristján Már Unnarsson skrifar
Boðið upp í hæstu lyftu landsins. Starfsmenn Blönduvirkjunar nota hana til að komast úr stjórnhúsi ofanjarðar niður í stöðvarhússhvelfinguna 234 metrum neðar.
Boðið upp í hæstu lyftu landsins. Starfsmenn Blönduvirkjunar nota hana til að komast úr stjórnhúsi ofanjarðar niður í stöðvarhússhvelfinguna 234 metrum neðar. Stöð 2/Einar Árnason.
Hæsta lyfta Íslands, sem ætluð er til fólksflutninga milli hæða, er ekki í Hallgrímskirkjuturni. Nei, í Húnavatnssýslum er lyfta sem er fjórfalt hærri en sú á Skólavörðuholtinu. Farið var í lengstu lyftuferð landsins í fréttum Stöðvar 2. 

Lyftuna finnum við í Blönduvirkjun, sem er neðanjarðarstöð. Stöðvarhúsið er djúpt undir yfirborði jarðar en til að komast milli þess og stjórnhúss ofanjarðar hafa starfsmenn lyftu og hún á Íslandsmet; þjónar í raun 64 hæða byggingu. 

Hæð lyftunnar skýrist af óvenju mikilli fallhæð Blönduvirkjunar, sem er 287 metrar. Þegar Jónas Þór Sigurgeirsson viðhaldsstjóri fór með okkur í lyftuna var ekki laust við að við værum með örlítinn hnút í maganum.

Lyftan er tiltölulega lítil en hún er ekki opin almenningi og eingöngu til nota fyrir starfsmenn.Stöð 2/Einar Árnason.
Í lyftugöngunum er stigi til að nota ef lyftan skyldi bila, en Jónas tekur fram að nýlega sé búið að endurnýja búnað lyftunnar. Menn hafa reynt sig við að hlaupa upp stigann og segir Jónas að metið sé undir tíu mínútum. Um sömu lyftugöng liggja einnig rafmagnskaplarnir sem flyta 160 megavött frá aflvélum virkjunarinnar inn á spenna ofanjarðar. 

Lyfta Blönduvirkjunar er 234 metrar á hæð. Það þýðir að hún er meira en fjórfalt hærri en lyftan upp í Hallgrímskirkjuturn, sem fer upp í um 50 metra hæð, en turninn er 74 metra hár með spíru. 

Hér má sjá lyftuferðina í frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.