Erlent

Erdogan birti aftur myndband af árásinni í Christchurch

Samúel Karl Ólason skrifar
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands. Vísir/AP
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, birti í gær aftur myndband af árásinni í Cristchurch á Nýja-Sjálandi þar sem hvítur þjóðernissinni myrti 50 manns í tveimur moskum. Erdogan notaði myndbandið á kosningasamkomu til að fordæma það sem hann sagði vera aukið hatur og fordóma gagnvart íslam.

Erdogan gagnrýndi Nýja-Sjáland og Ástralíu einnig harðlega fyrir að hafa sent hermenn til Tyrklands í fyrri heimsstyrjöldinni. Hann sagði það hafa verið gert vegna fordóma gegn íslam. Ríkin sendur hermenn til Gallipoli-skaga árið 1915 en innrásin misheppnaðist og kostaði hundruð þúsunda mannslífa.

„Hvað höfðuð til að sækja hingað? Við áttum ekki í deilum við ykkur, af hverju komu þið alla leið hingað?“ hefur AP fréttaveitan eftir Erdogan. „Eina ástæðan er sú að við erum múslimar og þau eru kristin.“



Erdogan gaf einnig í skyn að allir þeir sem kæmu til Tyrklands og sýndu andúð gegn múslimum yrðu sendur heim í líkkistum, „eins og afar þeirra“ voru í Gallipoli-innrásinni.

Erdogan sagði einnig að ef yfirvöld Nýja-Sjálands myndu ekki refsa árásarmanninum harðlega myndu Tyrkiri sjá til þess að honum yrði refsað, samkvæmt Guardian.



Kosningasamkoma Erdogan var í Canakkale í Tyrklandi þar sem margar orrustur fóru fram. Þann 25. apríl á hverju ári ferðast hundruð manna frá Ástralíu og Nýja-Sjálandi til héraðsins til að minnast innrásarinnar og þeirra sem féllu.

Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, fordæmdi ummæli Erdogan og kallaði sendiherra Tyrklands í Ástralíu á teppið í nótt og krafðist þess að Erdogan drægi ummæli sín til baka. Þá hefur ríkisstjórn hans varað Ástrala við því að ferðast til Canakkale vegna afmælis innrásarinnar.

Morrison sagði ummæli Erdogan vera móðgandi og glæfraleg.

Winston Peters, utanríkisráðherra Nýja-Sjálands, hefur einnig komið mótmælum á framfæri við yfirvöld Tyrklands.

Erdogan hefur notað myndbönd frá árásinni, sem árásarmaðurinn streymdi á Facebook í beinni útsendingu, á kosningasamkomum sínum í aðdraganda kosninga í lok mars. Erdogan hefur lengi verið sakaður um einræðistilburði í Tyrklandi og hefur hann meðal annars fangelsað þúsundir andstæðinga sinna og lokað fjölmiðlum sem eru ekki hliðhollir ríkisstjórn hans.


Tengdar fréttir

Kynna nýja og herta vopnalöggjöf á næstu dögum

Ríkisstjórnin á Nýja Sjálandi hefur samþykkt fyrir sitt leiti nýja vopnalöggjöf í landinu eftir hryðjuverkið í Christchurch þar sem fimmtíu féllu fyrir hendi byssumanns sem vopnaður var hálfsjálfvirkum rifflum og haglabyssum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×