Innlent

Gerir ekki lítið úr alvarlegri stöðu kjaraviðræðna

Kjartan Kjartansson skrifar
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, (t.v.) og Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður SA, hjá sáttasemjara.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, (t.v.) og Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður SA, hjá sáttasemjara. Vísir/Vilhelm
Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA) segist ekki gera lítið úr alvarlegri stöðu kjaraviðræðna þar sem stór verkalýðsfélög hafa slitið viðræðum. Fólk verði engu að síður að hafa trú á að samningsaðilum takist að lyfta óvissu sem liggi eins og mara á samfélaginu.

Verkföll félagsmanna VR og Eflingar hefjast á föstudag og í vikunni slitu Starfsgreinasambandið og Landssamband íslenskra verslunarmanna viðræðum sínum við SA. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, sagði í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni að áfram yrði fundað næstu daga.

„Að mörgu leyti hefur gengið ágætlega undanfarnar vikur og margt af því sem búið er að vinna þar getur myndað grunn að kjarasamningi til framtíðar,“ sagði Halldór.

Varðandi yfirvofandi verkföll sagðist Halldór þeirrar skoðunar að það væri hættuspil að vera með kjaramálin í átakafarvegi ofan í loðnubrest, tvísýna stöðu flugfélaganna og kólnandi hagkerfi.

Spurður að því á hverju strandaði í viðræðum SA við viðsemjendur sína sagði Halldór að of margir þættir stæðu út af. Vildi hann ekki segja nánar til um einstök ágreiningsmál eða hvort SA hygðist leggja til eitthvað nýtt á næstu fundum.

„Ábyrgð samningsaðila, beggja vegna borðs, er mikil. Það er nú einu sinni þannig að það þarf tvo til að semja. Við verðum einfaldlega að trúa því að okkur takist að lyfta þessari óvissu sem liggur eins og mara yfir samfélaginu,“ sagði Halldór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×