Fótbolti

Sigurmark Wales í uppbótartíma

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Leikmenn Wales fagna
Leikmenn Wales fagna vísir/getty
Ben Woodburn tryggði Wales sigur í uppbótartíma gegn Trínidad og Tóbagó og Þýskaland gerði jafntefli við Serba í vináttuleikjum í kvöld.

Það var markalaust hjá lærisveinum Ryan Giggs gegn Trínidad þar til komið var inn í uppbótartíma seinni hálfleiks þegar Woodburn kórónaði góðan seinni hálfleik hjá sér með marki eftir fyrirgjöf Will Vaulks.

Wales átti erfitt með að skapa sér opin færi í leiknum en var þó með mikla yfirburði. Trínidadar áttu aðeins tvö skot, eitt á rammann og eitt í varnarmann.

Í Þýskalandi voru það Serbar sem skoruðu fyrsta markið og það kom eftir tólf mínútna leik.

Markið var nokkuð gegn gangi leiksins, Þjóðverjar náðu ekki að verjast hornspyrnu og Luka Jovic skallaði boltann í netið.

Þjóðverjar voru meira með boltann og á 69. mínútu náðu þeir að jafna. Serbar misstu boltann á eigin vallarhelmingi og heimamenn nýttu sér það. Varamaðurinn Leon Goretzka hamraði boltann í netið.

Í uppbótartíma fékk Milan Pavkov rautt spjald og Serbar einum færri en það kom ekki að sök, leiknum lauk með 1-1 jafntefli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×