Innlent

Leyfir sér að vona að ekki verði verkföll í næstu viku

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR segist leyfa sér að vona að ekki þurfi að blása til verkfalla í næstu viku líkt og áætlað er. Verkfallið í dag hafi þó gengið áfallalaust fyrir sig en engin verkfallsbrot hafa komið upp. Þá segist Ragnar bjartsýnn á að kjaradeilan leysist fljótlega og gerir ráð fyrir að fundað verði stíft næstu daga.

Jóhann K. Jóhannsson, fréttamaður, ræddi við Ragnar í beinni útsendingu á Vísi í húsakynnum VR skömmu eftir klukkan 10 í morgun. Verkfall um tvö þúsund félagsmanna VR og Eflingar hófst á miðnætti og stendur í sólarhring.

Ragnar segist bjartsýnn á að kjaradeilan leysist fljótlega. Það séu vissulega alltaf vonbrigði að þurfa að fara í „átakaferli“ á borð við verkfall en viðræður haldi áfram. „Það er það sem skiptir máli,“ segir Ragnar.

Ekkert alvarlegt hefur komið upp á það sem af er þessum fyrsta verkfallsdegi VR í 31 ár, að sögn Ragnars. „Allavega engir pústrar og engin átök.“ Þá hafi verkfallsvörðum verið tekið vel þar sem þeir hafa komið.

Ekki búið að boða formlega til fundar í dag

Aðspurður segir Ragnar að dagurinn í dag snúist að mestu leyti um að vinna að málum sem komu út úr viðræðunum í gær. Ragnar segist þó ekki mega tjá sig um efni þeirra en verið sé að vinna kröfugerðina og teikna upp mögulegar lausnir. Þá vill hann ekki tjá sig um það hvort stutt sé á milli samningsaðila í kjaraviðræðunum.

„Ég get ekki svarað neinu um það. Við megum ekki tjá okkur um stöðuna eins og hún er núna. […] En við erum að reyna að nálgast þetta lausnamiðað.“

Aðspurður segir Ragnar að ekki sé búið að boða formlega til fundar í dag en býst við því að fundað verði stíft næstu daga. Þá hefur VR verið í óformlegu sambandi við stjórnvöld vegna kjaraviðræðanna. Um áframhaldandi verkfallsaðgerðir segir Kjartan að samtöl séu í góðum farvegi. Þá vonast hann til þess að ekki þurfi að efna til verkfalla í næstu viku, líkt og áætlað er á fimmtudag og föstudag.

„Ég leyfi mér að vona ekki.“

Greint er ítarlega frá framvindu dagsins í verkfallsvaktinni á Vísi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×