Innlent

Atli Már tapaði í Landsrétti og þarf að greiða rúma milljón í miskabætur

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Atli Már Gylfason mætti í héraðsdóm í fyrra, klæddur í bol sem vísaði til hvarfs Friðriks Kristjánssonar.
Atli Már Gylfason mætti í héraðsdóm í fyrra, klæddur í bol sem vísaði til hvarfs Friðriks Kristjánssonar. Vísir/Vilhelm

Atli Már Gylfason, blaðamaður, var í Landsrétt í dag dæmdur til að greiða Guðmundi Spartakusi Ómarssyni 1,2 milljónir króna í miskabætur fyrir ummæli sem birtust í umfjöllun Atla í Stundinni.

Guðmundur krafðist þess að ummælin sem voru viðhöfð um hann yrðu ómerkt en með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur var Atli Már sýknaður af kröfum Guðmundar með vísan til þess að Atli Már hefði ekki vegið svo að æru Guðmundar að hann hefði farið út fyrir leyfileg mörk tjáning.

Sjá nánar: Atli Már í meiðyrðamáli Guðmundar Spartakusar

Landsréttur kvað aftur á móti upp úr um það í dag að með hluta umfjöllunar sinnar hefði Atli Már borið Guðmund sökum um „alvarlegan og svífirðilegan glæp“ sem varði að lögum ævilöngu fangelsi. Guðmundur hefði ekki verið kærður fyrir hið ætlaða brot. Greinin sem um ræðir fjallar um hvarf Friðriks Kristjánssonar en hún birtist 1. desember árið 2016 á Stundinni.

Guðmundur fór fram á ómerkingu 30 ummæla en Landsréttur féllst á að dæma 23 þeirra dauð og ómerkt vegna þess að hin sjö væru að inntaki endursögn á ummælum sem birtust í öðrum fjölmiðlum.

Í dómnum segir að engin gögn eða upplýsingar í málinu styddu fullyrðingar Atla Más heldur væri eingöngu vísað til nafnlauss heimildarmanns. Guðmundur ætti ekki að þurfa að þola slíkar órökstuddar ásakanir að því er segir í dómi Landsréttar.

Hér er hægt að lesa dóminn í heild sinni.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×