Erlent

Trump dregur nýjar refsiaðgerðir skyndilega til baka

Kjartan Kjartansson skrifar
Eins og svo oft áður tilkynnti Trump um ákvörðun sína á Twitter.
Eins og svo oft áður tilkynnti Trump um ákvörðun sína á Twitter. Vísir/EPA
Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti að hann hefði dregið til baka nýjar refsiaðgerðir á Norður-Kóreu sem áttu að hafa verið kynntar fyrr í dag. Ekki er ljóst við hvaða aðgerðir forsetinn á en blaðafulltrúi Hvíta hússins segir að Trump telji aðgerðirnar ónauðsynlegar vegna þess að honum líki við Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu.

Reuters-fréttastofan segir að ekki sé ljóst til hvaða refsiaðgerða Trump hafi vísað þegar hann tísti í dag um að hann hefði gefið út skipun um að kalla aðgerðir sem „fjármálaráðuneytið tilkynnti um í dag“.

Ráðuneytið greindi frá því að tvö kínversk skipafyrirtæki hefðu verið sett á svartan lista fyrir að hjálpa Norður-Kóreumönnum að komast í kringum viðskiptaþvinganir í gær. Það eru fyrstu nýju aðgerðir Bandaríkjastjórnar gegn Norður-Kóreu eftir leiðtogafund Trump og Kim sem haldinn var í febrúar.

John Bolton, þjóðaröryggisráðgjafi Trump, tísti ánægju sinni með þær aðgerðir í gær og lýsti þeim sem mikilvægum. Skipaiðnaðurinn yrði að gera meira til að stöðva ólöglegar skipaferðir Norður-Kóreumanna.

Sarah Huckabee-Sanders, blaðafulltrúi Hvíta hússins, tiltók ekki hvaða aðgerðir Trump ætti við.

„Trump forseta líkar við Kim formann og hann heldur að þessar refsiaðgerðir verði ekki nauðsynlegar,“ sagði Sanders.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×