Fótbolti

Lars tók norsku pressuna til bæna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lars var ekki par sáttur við umfjöllun norskra fjölmiðla um leik Norðmanna og Spánverja.
Lars var ekki par sáttur við umfjöllun norskra fjölmiðla um leik Norðmanna og Spánverja. vísir/getty
Lars Lagerbäck lét norska fjölmiðla heyra það á blaðamannafundi í dag. Noregur tapaði 2-1 fyrir Spáni í undankeppni EM 2020 í gær og norska pressan gaf frammistöðu liðsins ekki háa einkunn.

Håvard Nordtveit, leikmaður Fulham, fékk ekki góða umsögn og þá var Lars gagnrýndur fyrir að skipta Martin Odegaard snemma af velli.

„Með fullri virðingu fyrir ykkar starfi höfum við aðra sýn á fótbolta. Håvard lék einn sinn besta landsleik en gerði ein mistök og þá er hann allt í einu ekki álitinn nógu góður til að spila með landsliðinu. Mitt hlutverk er að byggja leikmenn upp á meðan ykkar hlutverk er kannski að rífa þá niður,“ sagði Lars.

Svíinn bætti því við að hann hefði ekki lagt það í vana sinn að lesa umfjöllun fjölmiðla um leiki sinna liða. Hann hafi hins vegar breytt út af vananum í gær og furðaði sig á umfjölluninni um leikinn gegn Spáni.

Lars sagðist hafa góða reynslu af íslenskum fjölmiðlum og sagði þá starfa öðruvísi en fjölmiðlar í öðrum löndum þar sem hann hefur starfað.

„Íslenskir fjölmiðlar eru frábrugðnir öðrum. Norskir fjölmiðlar vinna eins og fjölmiðlar í Svíþjóð og Nígeríu. Þar var pressan mikil. Íslenskir fjölmiðlar hugsa um fótbolta og reyna að skilja hann út frá sjónarhorni þjálfaranna. Eflaust gerið þið það einnig en ykkar vinnuveitendur vilja kannski öðruvísi umfjöllun,“ sagði Lars.

Noregur mætir Svíþjóð í öðrum leik sínum í undankeppni EM á þriðjudaginn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×