Innlent

Segir fjárhag Reykjanesbæjar viðkvæman vegna ytri aðstæðna

Sighvatur Arnmundsson skrifar
Miðflokkurinn er efins um uppbyggingu vegna óvissu.
Miðflokkurinn er efins um uppbyggingu vegna óvissu. fbl/stefán
Margrét Þórarinsdóttir, fulltrúi Miðflokksins í bæjarstjórn Reykjanesbæjar, telur óheillavænlegt að setja hundruð milljóna í uppbyggingu í bænum á meðan óvissa ríkir um ytri efnahagsaðstæður sem muni bitna hart á Reykjanesbæ ef aðstæður þróast í neikvæða átt.

„Þegar eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga var tilkynnt að samningar væru ekki í sjónmáli við kröfuhafa um endurskipulagningu fjárhags Reykjanesbæjar var sagt að að öllu óbreyttu kæmi til greiðslufalls á skuldbindingum sveitarfélagsins. Þótt árangur hafi náðst er skuldahlutfall bæjarins enn mjög hátt og fjárhagurinn því viðkvæmur,“ segir Margrét.

„Að okkar mati er því skrýtið að gera tillögu um hundraða milljóna útgjöld þegar óvissa ríkir í efnahagsmálum, og dregið hefur úr komu ferðamanna til landsins. Einnig eru kjarasamningar lausir og við vitum ekki hvaða áhrif það hefur á okkar bæjarfélag.“

Margrét bendir einnig á að atvinnuleysi hafi aukist á Suðurnesjum sem og að staða WOW gæti haft mikil áhrif á fjárhag Reykjanesbæjar.

„Við vonum auðvitað að WOW muni halda áfram rekstri en flugstöðin skiptir gríðarlega miklu máli fyrir okkur hér í Reykjanesbæ. Því er mikilvægt að við vitum hvernig staðan verður og einbeitum okkur og forgangsröðum fjármunum í lögbundin hlutverk sveitarfélagsins.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×