Erlent

Kín­verjar á­kæra fyrr­verandi for­seta Inter­pol fyrir mútu­þægni

Atli Ísleifsson skrifar
Meng Hongwei, fyrrverandi forseti Interpol, er nú í haldi kínverskra yfirvalda.
Meng Hongwei, fyrrverandi forseti Interpol, er nú í haldi kínverskra yfirvalda. Vísir/AP
Fyrrverandi forseti Interpol, Meng Hongwei, hefur verið ákærður fyrir mútuþægni í Kína. Meng Hongwei, sem hvarf sporlaust í heimsókn sinni til Kína síðasta haust, hefur einnig verið rekinn úr Kommúnistaflokknum að því er fram kemur í stuttri tilkynningu frá eftirlitsnefnd flokksins.

Meng er sakaður um að hafa misnotað vald sitt, neitað að framfylgja ákvörðunum Kommúnistaflokksins, þegið mútur og sóað kínversku almannafé.

Auk þess að gegna embætti forseta Interpol gegndi Meng embætti aðstoðarráðherra þjóðaröryggismála í Kína og var áður yfirmaður hryðjuverkalögreglu og strandgæslunnar í Kína. Hann tók við stöðu forseta Interpol árið 2016.

Ekkert spurðist til Meng eftir heimsókn hans til Kína í september síðastliðinn og var það eiginkona hans, Grace Meng, sem tilkynnti um hvarfið.

Nokkru síðar bárust upplýsingar frá kínverskum yfirvöldum um að Meng hafi verið handtekinn. Meng sagði af sér embætti forseta Interpol í október.


Tengdar fréttir

Óvænt tap Rússa í forsetakjöri Interpol

Suður-Kóreubúinn Kim Jong-yang bar óvænt sigur úr bítum í kosningum um forseta alþjóðalögreglunnar Interpol á ársþingi lögreglunnar í Dubai. Flestir höfðu talið líklegt að mótframbjóðandi hans, Rússinn Alexander Prokopchuk, yrði kjörinn forseti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×