Fótbolti

Maradona-mark Messi það besta í sögu Barcelona

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Lionel Messi á sprettinum framhjá hálfu Getafe-liðinu fyrir tólf árum.
Lionel Messi á sprettinum framhjá hálfu Getafe-liðinu fyrir tólf árum. vísir/getty
Lionel Messi skoraði flottasta markið í sögu Barcelona samkvæmt kosningu stuðningsmanna félagsins en hann á einnig næst flottasta markið og markið í þriðja sæti. BBC greinir frá.

Tvítugur Lionel Messi skoraði hreint ótrúlegt mark í undanúrslitum spænska konungsbikasins árið 2007 gegn Getafe þar sem að hann vann boltann á eigin vallarhelmingi, fíflaði hálft liðið hjá Getafe, þar á meðal markvörðinn, og kom boltanum í netið.

Þetta magnaða mark, sem er ekki ólíkt Maradona-markinu fræga gegn Englandi á HM 1986, fékk 48 prósent atkvæða í kosningunni og vann yfirburðarsigur.

Mark Messi á móti Athletic Bilbao árið 2015 sömuleiðis í undanúrslitum bikarsins fékk 28 prósent atkvæða og mark sem hann skoraði á móti Real Madrid á Bernabéu tímabilið 2010/2011 varð í þriðja sæti með 16 prósent atkvæða.

Yfir 500.000 stuðningsmenn Barcelona frá 160 löndum tóku þátt en velja mátti úr 63 mörkum úr glæstri sögu Barcelona.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×