Fótbolti

Ætla að styðja við bakið á gamla Liverpool manninum eftir baulið um helgina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Philippe Coutinho.
Philippe Coutinho. Vísir/Getty
Philippe Coutinho hefur upplifað skemmtilegri tíma á sínum fótboltaferli en í leik Barcelona og Rayo Vallecano í spænsku úrvalsdeildinni um helgina.

Barcelona vann leikinn 3-1 en áhorfendur á Nývangi bauluðu á Brasilíumanninn og hann var á endanum tekinn af velli tíu mínútum fyrir leikslok.





Philippe Coutinho hefur „aðeins“ skorað þrjú mörk síðan í október og það er ekki mikið fyrir mann sem Barcelona gæti á endanum þurft að borga 142 milljónir punda fyrir.

Coutinho var frábær með Liverpool liðinu en hefur gengið frekar illa að fóta sig meðal stórstjarnanna í Barcelona. Hann er 26 ára gamall og ætti því að vera detta inn í sín bestu ár sem knattspyrnumaður.

Stuðningsmenn Barcelona sýna hins vegar engan miskunn og það er erfitt að spila við hlið snillinga eins og Lionel Messi sem skekkja mat flestra á því hvað sé góður fótboltamaður.

Lionel Messi hefur komið að 53 mörkum Barcelona á leiktíðinni (34 mörk og 19 stoðsendingar) eða 40 mörkum fleiri en Philippe Coutinho.





„Við verðum að sætta okkur við viðbrögð stuðningsmannanna en við verðum að styðja við bakið á honum innan liðsins,“ sagði Gerard Pique.

„Þetta er búið að vera gott tímabil hjá Philippe,“ sagði Pique í viðtalinu við Marca. „Augljóslega kostaði hann félagið mjög mikinn pening og það eru því mun meiri væntingar. Svona er þetta bara,“ sagði Pique.

„Við þurfum á honum að halda í sínu besta formi á lokakaflanum og ég er viss um að hann verður í því,“ sagði Pique.

Philippe Coutinho hefur spilað 39 leiki í öllum keppnum og er með 8 mörk og 5 stoðsendingar í þeim. Hann síðasta deildarmark kom aftur á móti í lok október og hann hefur ekki átt þátt í deildarmarki síðan 13. janúar.

Stoðsending hans á Luis Suárez á móti Eivar 13. janúar er eina markið sem þessi sóknarmaður hefur komið að í spænsku deildinni í síðustu fimmtán leikjum sínum með Börsungum.

Coutinho kom að 13 mörkum (7 mörk og 6 stoðsendingar) í 14 deildarleikjum með Liverpool 2017-18 og tímabilið á undan var hann með 13 mörk og 7 stoðsendingar í 31 leik í ensku úrvalsdeildinni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×