Lífið

Hatari í viðtali við Independent: „Við erum bleiki fíllinn í herberginu“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Hataramenn verða á sviðinu í Tel Aviv 14. maí.
Hataramenn verða á sviðinu í Tel Aviv 14. maí. Mynd/RÚV

Hljómsveitin Hatari vann Söngvakeppni Sjónvarpsins í byrjun mánaðarins en sveitin hafði betur gegn Friðriki Ómari í einvígi í úrslitum. Hatari verður því fulltrúi Íslands í Ísrael í maí.

Framlag Íslands heyrist á fyrra undanúrslitakvöldinu þann 14. maí. Ljóst er að Ísland verður í seinni hlutanum á fyrra undankvöldinu sem haldið verður í Tel Aviv eins og lokakeppnin 18. maí.

Hataramenn, þeir Matthías Tryggvi Haraldsson og Klemens Hannigan, eru í viðtali við breska miðilinn Independent þar sem þeir segjast vera bleiki fíllinn í herberginu í keppninni.

Fyrir liggur að þátttaka Hatara í Eurovision hefur þegar valdið verulegum skjálfta í Ísrael. Hatari vann Söngvakeppnina hér heima með miklum yfirburðum. Meðan margir hvöttu til sniðgöngu á Eurovision hafa meðlimir Hatara gefið það út að þeir vilji nota þennan vettvang til að gagnrýna framgöngu Ísrael gagnvart Palestínu. Yfirlýst markmið Hatara er að knésetja kapítalismann. Rob Holley, blaðamaður Independent, hitti sveitina hér í Reykjavík.

Hatari unnu Söngvakeppnina með miklum yfirburðum. visir/vilhelm

„Okkur hefur verið lýst sem BDSM sviðlistabandi en listinn yfir lýsingarorð yfir sveitina er í raun endalaus,“ segir Matthías Haraldsson og þá bætir Klemens Hannigan við: „Um leið og fólk fer að setja okkur í eitthvað box, bregðumst við við til að forðast einhvern stimpil,“ en viðtalið var tekið inni í Laugardalshöll.

„Tónlistarsenan í Reykjavík er mjög lítil og það er auðvelt að vekja athygli. Flestallir í senunni eru vinir og maður þekkir í raun alla. Við byrjuðum í grasrótinni í senunni en núna þekkir öll þjóðin okkur,“ segir Klemens.

Eins og áður segir er yfirlýst markmið sveitarinnar að knésetja kapítalismann.

„Það var kannski of háleitt markmið. Það er auðveldara að ímynda sér endalok heimsins en endalok  kapítalismans. Við ætlum okkur að reyna það en í leiðinni selja kannski nokkra stuttermaboli,“ segir Matthías og bætir við að hann og Klemens séu algjörar andstæður í  laginu og flutningnum.

Hataramenn vilja nota vettvanginn til að koma fram með ákveðin skilaboð.

„Það er mikill munur á framgöngu Ísraelsríkis, þar sem við beinum gagnrýni okkar til, og fólksins í Ísrael,“ segir Matthías og bætir við að það sé mjög erfitt að halda því fram að Eurovision sé ópólitísk keppni.

Klemens og Matthías ræddu við Endependent.

„Þú skrifar undir samning sem segir að það sé ekki leyfilegt að koma fram með pólitísk skilaboð. Ef einhver keppandi heldur að hann sé að fara í keppnina án þess að vera með einhverskonar pólitísk skilaboð, þá gæti sá aðili ekki haft meira rangt fyrir sér. Öll lögin sem verða á sviðinu gætu sært blygðunarkennd einhvers og aðallega af þeirri ástæðu hvar keppnin er haldin,“ segir Matthías.

„Svo það verður erfitt að brjóta þessar reglur. Þú getur ekki komið fram á sviðinu í Tel Aviv án þess að brjóta þessar reglur. Það á við um okkur og alla aðra. Þú getur aldrei þagað alveg um ástandið, en þögnin er einnig mjög pólitísk yfirlýsing,“ segir Matthías.

„Ég skil alveg fólk sem vill sniðganga keppnina að þessu sinni og það er alveg þeirra réttur,“ segir Klemens. Þarna greina þeir frá áskorun sinni til Benjamin Netanyahu forsætisráðherra Ísrael í glímu. Ef Netanyahu vinnur bardaga í íslenskri glímu fær Ísraelsríki yfirráð yfir Vestmannaeyjum.

„Fólk getur vel haft skoðun á gæði lagsins og flutningum en það er mikil þörf fyrir þessu atriði. Fólk virðist tengja við þetta samtal, þetta eldheita samtal,“ segir Matthías en Ísland hefur ekki komist upp úr undanriðlinum síðan 2014 og er eina Norðurlandaþjóðin sem aldrei hefur unnið keppnina.

„Við munum vinna Eurovision 2019. Eins og staðan er núna eru hlutirnir að fara alveg eins og planað var. Við erum bleiki fíllinn í herberginu.“


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.