Erlent

Flugvélar Boeing fara aftur í loftið í fyrsta lagi í maí

Samúel Karl Ólason skrifar
Flugvélarnar voru kyrrsettar í kjölfar banvæns slyss í Eþíópíu á sunnudaginn og annars í Indónesíu í fyrra.
Flugvélarnar voru kyrrsettar í kjölfar banvæns slyss í Eþíópíu á sunnudaginn og annars í Indónesíu í fyrra. AP/Matt York

Allar flugvélar Boeing af gerðinni 737 MAX 8 og MAX 9 verða kyrrsettar þar til í maí, í fyrsta lagi. Flugmálayfirvöld Bandaríkjanna, FAA, segja að þeim verði ekki flogið á ný fyrr en þær hafa allar fengið hugbúnaðaruppfærslu. Flugvélarnar voru kyrrsettar í kjölfar banvæns slyss í Eþíópíu á sunnudaginn og annars í Indónesíu í fyrra.

Sérfræðingar hafa fundið líkindi hafa á slysunum með því að bera saman gögn úr gervihnöttum. Báðar flugvélarnar brotlentu skömmu eftir flugtak og í Eþíópíu tilkynnti flugstjóri flugvélarinnar að hann ætti í erfiðleikum með að stýra henni og hafði hann beðið um, og fengið, heimild til að snúa við og lenda aftur.

Bráðabirgðaniðurstöður rannsóknar á flugslysinu í Indónesíu í fyrra að skynjari hafi fyrir mistök talið nef flugvélarinnar vera of hátt og sjálfstýring flugvélarinnar hafi því tekið völdin og lækkað flugið. Flugmenn flugvélarinnar hafi ekki getað hækkað flugið og því hafi hún hrapað í Jövuhaf.

Þar að auki hafa fregnir borist af því að FAA hafi minnst tvisvar sinnum borist tilkynningar frá flugmönnum í Bandaríkjunum um að flugvélar af þessum gerðum hafi lækkað flugið um tólfhundruð til fimmtánhundruð fet á mínútu, eftir að kveikt var á sjálfsstýringu þeirra. Í bæði skiptin tók þó stuttan tíma að rétta flugvélarnar af, þegar slökkt hafði verið á sjálfsstýringunni.

Rannsókn á flugrita hefst á morgun

BBC ­hefur eftir þingmanninum Rick Larsen að það muni taka nokkrar vikur að uppfæra hugbúnað allra flugvélanna sem um ræðir. Það muni í það minnsta taka út apríl. Þó er bent á að FAA sagði í gær að uppfærsla sem starfsmenn Boeing hafa verið að vinna að frá flugslysinu í Indónesíu sé langt frá því að vera tilbúin. Það muni taka mánuði að klára hana.

Frakkar hafa tekið yfir rannsókn á flugrita flugvélarinnar sem brotlenti í Eþíópíu. Flugritinn er þó sagður hafa orðið fyrir verulegum skemmdum og óljóst er hve langan tíma það mun taka að ná gögnum af honum. Vinnan hefst í fyrramálið, samkvæmt Reuters.

Forsvarsmenn Boeing staðhæfa að flugvélarnar séu öruggar en hafa þó stöðvað afhendingu þeirra fimm þúsund flugvéla sem flugfélög um heiminn allan hafa pantað af bandaríska fyrirtækinu. Framleiðslu þeirra verður þó haldið áfram í millitíðinni.

Hlutabréf Boeing hafa lækkað um ellefu prósent frá því á sunnudaginn.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.