Erlent

Rússarannsóknin heldur áfram enn um sinn

Kjartan Kjartansson skrifar
Rick Gates hefur nú unnið með saksóknurum í rúmt ár.
Rick Gates hefur nú unnið með saksóknurum í rúmt ár. Vísir/EPA

Embætti sérstaka rannsakanda bandaríska dómsmálaráðuneytisins óskaði eftir því í dag að frestað verði að ákveða refsingu fyrrverandi aðstoðarkosningastjóra Donalds Trump Bandaríkjaforseta þar sem hann vinni enn með saksóknurum. Líklegt hefur verið talið að rannsóknin væri á lokasprettinum en beiðnin þykir benda til þess að endalok hennar séu enn ekki í sjónmáli.

Í greinargerð sem saksóknarar Roberts Mueller, sérstaka rannsakandans á meintu samráði forsetaframboðs Trump við Rússa, skiluðu svæðisdómstól í Washington-borg óskaðu þeir eftir því við dómara að hann frestaði að ákveða refsingu Rick Gates, fyrrverandi aðstoðarkosningastjóra Trump, til 14. maí.

„Gates heldur áfram að vinna með áframhaldandi rannsóknum og í samræmi við það telja aðilar ekki viðeigandi að hefja ákvörðun refsing á þessari stundu,“ segir í greinargerðinni, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Gates játaði sig sekan um að hafa logið að rannsakendum og átt aðild að samsæri gegn Bandaríkjastjórn í febrúar í fyrra. Hann hefur veitt saksóknurum upplýsingar um fyrrverandi yfirmann sinn, Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóra Trump. Manafort var dæmdur í rúmlega sjö ára fangelsi fyrir ýmis brot í vikunni.

Politico segir að greinargerð saksóknara bendi til þess að Gates gæti verið að vinna með saksóknurum í New York sem rannsaka innsetningarnefnd Trump. Gates tók þátt í að skipuleggja innsetningarhátíðina þrátt fyrir að Manafort hefði látið af störfum sem kosningastjóri Trump í ágúst árið 2016.

Bandarískir fjölmiðlar hafa gert að því skóna undanfarið að rannsókn Mueller væri við það að ljúka. Fresturinn í máli Gates gæti bent til þess að enn sé nokkuð í að saksóknararnir hafi gengið frá öllum lausum endum í rannsókn sinni sem beinist einnig að því hvort að Trump forseti hafi hindrað framgang réttvísinnar.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.