Innlent

Íslenskar konur lögðu áherslu á að hafa fallegt í kringum sig

Kristján Már Unnarsson skrifar
Elín S. Sigurðardóttir, forstöðumaður Heimilisiðnaðarsafnsins á Blönduósi, sýnir þjóðbúningana.
Elín S. Sigurðardóttir, forstöðumaður Heimilisiðnaðarsafnsins á Blönduósi, sýnir þjóðbúningana. Stöð 2/Einar Árnason.

Í safni, sem ekki á sinn líka hérlendis, má sjá hvernig undirfötum íslenskar konur klæddust fyrr á tímum og kynnast hugmyndafræðinni á bak við íslenska skautbúninginn. Safnið finnst norður í Húnavatnssýslum en fjallað var um það í fréttum Stöðvar 2. 

Það heitir Heimilisiðnaðarsafnið og á sér yfir fjörutíu ára sögu á Blönduósi. Það stendur við hlið gamla Kvennaskólans á norðurbakka Blöndu skammt frá ósnum. 

„Þetta er eina safn sinnar tegundar á Íslandi og við erum sérstaklega að vekja athygli á menningararfi kvenna,“ segir Elín S. Sigurðardóttir, forstöðumaður Heimilisiðnaðarsafnsins.

Heimilisiðnaðarsafnið er á norðurbakka Blöndu, við hlið gamla Kvennaskólans. Stöð 2/Einar Árnason.

Í sýningarsal sem kallast „Herbergið hennar“ segir Elín okkur að hvort sem var á fátækum eða efnameiri heimilum hafi íslenskar konur lagt mikla áherslu á að hafa fallegt í kringum sig. 

„Undirfötin, þetta var hvítt, þetta var fallegt, þetta var útbróderað. Sama með sængurfatnað. Falleg milliver. Sængurver voru ekki tekin í notkun fyrr en búið var að merkja þau,“ segir Elín. 

Í þjóðbúningsal má sjá peysuföt og skautbúninga. Þar sýnir Elín okkur hvernig framreiðslustúlkur voru klæddar þegar þær gengu um beina í heimsókn Danakonungs árið 1907; í upphlut með hvítri skyrtu og slaufu.

Halldóra Bjarnadóttir við ritvélina en hún varð landsþekkt fyrir greinaskrif og útvarpserindi um störf kvenna. Mynd/Heimilisiðnaðarsafnið.

Það var karlmaður sem hannaði skautbúninginn, Sigurður Guðmundsson málari, í kringum 1860. 

„Hann var mjög rómantískur, hann Sigurður. Hann leit svo á að konan ætti að vera svona tákn fyrir þjóðina, fyrir landið. Blæjan, faldurinn, spöngin; þetta eru tákn fyrir jöklana, fjöllin, sólina,“ segir Elín.

Halldórustofa, helguð Halldóru Bjarnadóttur, sem var frumkvöðull í því að halda menningu kvenna á lofti, þykir sumum helgidómur en þar má sjá persónulega muni hennar. 

„Stólinn sem hún kallaði ævinlega hásætið sitt og sagði gjarnan við gesti: Tylltu þér í hásætið og ég gef þér sérríglas.“ 

Halldóra varð 108 ára gömul og þegar hún lést árið 1981 hafði enginn Íslendingur náð svo háum aldri. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

Hvetur fólk til að klæðast íslenska þjóðbúningnum

Þjóðbúningadagurinn var haldinn í Safnahúsinu í dag. Dagurinn er liður í því að hvetja landsmenn til að klæða sig oftar upp í Þjóðbúning, en formaður Heimilisiðnaðarfélags Íslands vill sjá fólk í þjóðbúningi við öll tilefni.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.