Fótbolti

Þrjú töp og einn sigur hjá Íslendingunum í Danmörku

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Hjörtur í leik með Bröndby
Hjörtur í leik með Bröndby
FCK er danskur deildarmeistari í fótbolta en síðasta umferð dönsku úrvalsdeildarinnar fór fram í dag.

Fyrirkomulagið í dönsku deildinni er þannig að 14 lið spila við hvort annað heima og að heiman eins og í hefðbundinni deildarkeppni. Svo skiptist deildin í tvær minni deildir.

Efstu sex liðin spila innbyrðis heima og heiman og liðið með flest stig eftir það er danskur meistari. Hinn átta liðin spila innbyrðis í tveimur deildum þar sem barist er um fall.

FCK varð efst í deildinni í ár með 61 stig, með eins stigs forystu á Midtjylland.

Hjörtur Hermannsson spilaði allan leikinn í sigri Bröndby á Horsens í lokaumferðinni. Bröndby endaði í fjórða sæti deildarinnar með 38 stig.

Kjartan Henry Finnbogason spilaði einnig allan leikinn fyrir Vejle en honum tókst ekki að koma í veg fyrir 2-1 tap fyrir Esbjerg. Vejle endar því á botni deildarinnar með 20 stig.

Tveimur sætum og stigum fyrir ofan þá endaði Vendyssel sem tapaði 0-1 fyrir Nordsjælland í dag. Jón Dagur Þorsteinsson byrjaði leikinn fyrir Vendyssel en var tekinn út af á lokamínútunum.

Eggert Gunnþór Jónsson spilaði allan leikinn fyrir Sönderjyske sem tapaði fyrir Midtjylland 2-1. Sönderjyske endaði í 11. sæti deildarinnar.

Sönderjyske, Vendyssel og Vejle fara því öll í baráttu um fall á meðan Bröndby spilar um danska meistaratitilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×