Fótbolti

PSG með tuttugu stiga forystu á toppnum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Mbappe og di Maria sáu um mörk PSG í leiknum
Mbappe og di Maria sáu um mörk PSG í leiknum vísir/getty
Paris Saint-Germain vann öruggan sigur á Marseille og styrkti stöðu sína á toppi frönsku Ligue 1 deildarinnar.

Það tók PSG allan fyrri hálfleikinn að setja fyrsta markið, það kom í uppbótartíma hans. Kylian Mbappe skoraði eftir undirbúning Angel di Maria.

Gestirnir jöfnuðu hins vegar metin í upphafi seinni hálfleiks með marki frá Valere Germain. Markið kom eftir aðeins 27 sekúndur í seinni hálfleik.

Di Maria kom heimamönnum aftur yfir á 56. mínútu og bætti svo við stórbrotnu marki tíu mínútum síðar. PSG fékk aukaspyrnu vel fyrir utan teig en Argentínumaðurinn skilaði henni í netið.

Í uppbótartíma fékk PSG tækifæri til þess að bæta við markatöluna þegar Kylian Mbappe var felldur innan vítateigs og vítaspyrna dæmd. Hann fór sjálfur á punktinn en Yohann Pele, sem hafði komið inná sem varamaður, varði vítaspyrnuna.

Leiknum lauk með 3-1 sigri og PSG er núna með 20 stiga forystu á toppi frönsku deildarinnar og á leik til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×