Innlent

Hvetja almenning til að skilja bílinn eftir heima

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Mikil mengun er á höfuðborgarsvæðinu í dag.
Mikil mengun er á höfuðborgarsvæðinu í dag. Vísir/Vilhelm
Heilbrigðiseftirlitið hvetur almenning til að draga úr notkun einkabílsins í dag og næstu daga vegna afar slæmra loftgæða í Reykjavíkurborg.

Styrkur svifryks (PM10) er hár í dag samkvæmt mælingum við Grensásveg, Njörvasund og  Sæbraut. Klukkan 14.00 í dag var klukkutímagildi svifryks við Grensásveg 119,0 míkrógrömm á rúmmetra en til viðmiðunar eru sólarhringsheilsuverndarmörk fyrir svifryk eru 50 míkrógrömm á rúmmetra.

Í fjölskyldu- og húsdýragarðinum var svifryksgildi 13,1 míkrógramm á rúmmetra.

Í dag er hægur vindur og kalt, götur þurrar og rigning er ekki í kortunum sem gerir loftgæðin verri en ella. Næstu daga er búist svipuðum veðurfarsaðstæðum í borginni og því er almenningur hvattur til að draga úr notkun á einkabílnum við þessar aðstæður og nýta sér þess í stað almenningssamgöngur eða aðra vistvæna samgöngumáta.

Börn og aðrir þeir sem eru viðkvæmir fyrir í öndunarfærum ættu að forðast útivist í nágrenni við stórar umferðargötur. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fylgist náið með loftgæðum borgarinnar og sendir frá sér viðvaranir og leiðbeiningar ef þess gerist þörf. Hægt er að fylgjast með loftgæðum á loftgæði.is.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.