Innlent

Lagði fram frumvarp um fiskeldi

Daníel Freyr Birkisson og Sveinn Arnarsson skrifar
Kristján Þór Júlíusson, sjávar­útvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur lagt fram á Alþingi frumvarp um ýmsar breytingar á lögum um fiskeldi. Í frumvarpinu er meðal annars lagt til að áhættumat erfðablöndunar verði lögfest og heildarframleiðslumagn frjórra laxa byggi á því mati.

Frumvarpið byggir að miklu leyti á skýrslu starfshóps um stefnumótun í fiskeldi sem skilaði tillögum í ágúst í fyrra. Í tilkynningu frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu segir að ákvarðanir stjórnvalda um uppbyggingu fiskeldis verði byggðar á ráðgjöf vísindamanna.

Þess vegna sé lagt til að áhættumatið verði lögfest. Gert er ráð fyrir að Hafrannsóknastofnun geri bindandi tillögur að áhættumati sem verði svo bornar undir samráðsnefnd um fiskeldi en skipun nefndarinnar er liður í eflingu stjórnsýslu og eftirlits.

Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að innra eftirlit sjókvíaeldisstöðvar skuli meðal annars fela í sér vöktun á viðkomu laxalúsar í eldinu í samræmi við leiðbeiningar sem ráðherra mun setja í reglugerð. Niðurstöður vöktunar verði sendar Matvælastofnun sem meti þörf á aðgerðum.

Í því skyni að auka gegnsæi í fiskeldisstarfsemi gerir frumvarpið ráð fyrir umfangsmeiri upplýsingaskyldu fiskeldisfyrirtækja um starfsemina en samkvæmt gildandi lögum. Vegna á­herslu á rann­sóknir og vöktun líf­ríkisins gerir frum­varpið sér­stak­lega ráð fyrir heimild Haf­rann­sókna­stofnunar til að stunda tíma­bundnar rann­sóknir á fisk­eldi í fisk­veiði­land­helgi Ís­lands, ein eða í sam­starfi við aðra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×