Innlent

Segir starfs­nema ekki mega ganga í störf þeirra sem eru í verk­falli

Kristín Ýr Gunnarsdóttir skrifar
Magnús Norðdahl, lögfræðingur ASÍ, segir fáa mega ganga í störf þeirra sem eru í verkfalli.
Magnús Norðdahl, lögfræðingur ASÍ, segir fáa mega ganga í störf þeirra sem eru í verkfalli.
Margar spurningar hafa vaknað í kringum verkfallið og þá helst hverjir mega ganga í störf þeirra sem eru í verkfalli. Skiptar skoðanir eru meðal Samtaka atvinnulífsins og Verkalýðshreyfingarinnar en lögfræðingur Alþýðusambands Íslands segir aðeins æðstu stjórnendur mega sinna störfunum.

„Við erum að tala um forstjóra og framkvæmdastjóra. Nú erum við með fyrirtæki sem eru kannski stór fyrirtæki rekin með sjálfstæða framkvæmdastjóra á nokkrum starfsstöðvum. þessir æðstu stjórnendur hugsanlega geta gengið í störf sinna undirmanna en aðrir ekki. Ekki millistjórnendur og ekki lægra settir stjórnendur," segir Magnús Norðdahl lögfræðingur ASÍ. 

Ekki megi heldur kalla til fjölskyldu í vinnu nema þá allra nánustu. Ásamt hótelstjóra á Hótel Sögu voru nemar til taks í dag.

„Svo erum við með fjóra erlenda nema í hótelstjórnun frá Evrópu.  Við erum svo heppin að vera með þau í húsi. Þannig að þau verða með okkur í dag,” sagði Ingibjörg Ólafsdóttir hótelstýra á Hótel Sögu.    

Ef þú ert með nema hjá þér, sem eru að læra, mega þeir ganga í störf meðan á verkfalli stendur? 

„Nei það mega þeir ekki. Ekki frekar en nokkrir aðrir. Verkfallið tekur til allra sem eru á þessu  samningsviði. Atvinnurekendur mega ekki reyna að brjóta verkfallið á bak með því að fá aðra til þess að ganga í störf verkfallsmanna og ekki þennan hóp heldur," leggur Magnús áherslu á.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×