Fótbolti

Stelpurnar okkar á heimavelli í fyrstu tveimur leikjunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir í leik á móti Þýskalandi í síðustu undankeppni.
Sara Björk Gunnarsdóttir í leik á móti Þýskalandi í síðustu undankeppni. Getty/Maja Hitij
Fulltrúar Knattspyrnusambands Íslands hafa náð samkomulagi við hinar þjóðirnar um leikdaga í undankeppni Evrópumótsins í Englandi.

Íslenska kvennalandsliðið byrjar undankeppni EM 2021 á tveimur heimaleikjum en endar hana í erfiðasta útileiknum.

Dregið var í riðla í undankeppni EM kvenna 2021 í gær og lentu íslensku stelpurnar í riðli með Svíþjóð, Ungverjalandi, Slóvakíu og Lettlandi.

Ísland byrjar keppnina á tveimur heimaleikjum og lýkur henni á tveimur viðureignum við Svía - fyrst á Laugardalsvelli og svo á útivelli.





Fyrstu heimaleikirnir í haust verða 29. ágúst og 2. september og á móti Ungverjalandi og Slóvakíu.

Íslenska liðið fer síðan í einn leik í Lettlandi í október 2019 og í apríl á næsta ári verður farin fer til Austur-Evrópu þar sem liðið spilar útileiki við Ungverjaland og Slóvakíu með fjögurra daga millibili.

Íslensku stelpurnar fá líka tvo heimaleiki með fimm daga millibili í júní 2000 en sá seinni verður á móti Svíum.

Þá er aðeins einn leikur eftir en útileikurinn við Svía fer þó ekki fram fyrr en þremur og hálfum mánuði síðar eða 22. september 2020. Það gæti orðið úrslitaleikur riðilsins eða úrslitaleikur um að tryggja sig inn sem eitt af liðunum með besta árangurinn í öðru sætinu.



Leikdagar Íslands í undankeppni EM 2021:

Ísland - Ungverjaland 29. ágúst 2019

Ísland - Slóvakía 2. september 2019

Lettland - Ísland 8. október 2019

Ungverjaland - Ísland 10. apríl 2020

Slóvakía - Ísland 14. apríl 2020

Ísland - Lettland 4. júní 2020

Ísland - Svíþjóð 9. júní 2020

Svíþjóð - Ísland 22. september 2020




Fleiri fréttir

Sjá meira


×