Veður

Kuldastillan staldrar stutt við

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Það verður bjart og fallegt veður víða um land í dag. Kuldastillan staldrar þó stutt við.
Það verður bjart og fallegt veður víða um land í dag. Kuldastillan staldrar þó stutt við. Vísir/Vilhelm

Víðast hvar er hæglætis veður en færð er enn mjög þung á Austurlandi samkvæmt upplýsingum á vef Vegagerðarinnar. Ófært er á syðri Háreksstaðaleið og þungfært á Jökuldal og ófært einnig um Hólasand og á Borgarfjarðarvegi norður af Eiðum og einnig á Hróarstunguvegi. Unnið er að mokstri um allt land en þæfingur eða þungfært er víða á fjallvegum og éljagangur norðan til.

Þjóðvegur eitt er víðast greiðfær en sumstaðar nokkur hálka eða hálkublettir.
Kólnar í veðri í dag og má búast við tveggja stafa frosttölum norðanlands seinni partinn í dag. Útlit er fyrir breytilega átt þrjá til átta metra á sekúndu og víða þurrt og bjart veður að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Kuldastillan mun þó ekki að staldra lengi við því strax á morgun verður viðsnúningur í veðrinu og búist við allhvassri suðaustanátt og slyddu eða snjókomu sunnan- og vestanlands, sem síðan færir sig yfir í rigningu á láglendi þegar hiti fer vel upp fyrir frostmark. Á Norður- og Austurlandi verður hægari vindur og þar ætti að vera úrkomulaust að mestu. Dregur úr frosti smám saman á Norður og Austurlandi á morgun, þar sem það tekur tíma fyrir suðaustanáttina að blása burt kalda loftinu sem í dag sest í allar lægðir í landslaginu.

Veðurhorfur á landinu samkvæmt vef Veðurstofunnar

Minnkandi vindur og úrkoma, breytileg átt 3-8 m/s í dag. Víða þurrt og bjart veður, en dálítil él við norður- og austurströndina og einnig stöku él sunnanlands seinnipartinn. Frost 2 til 13 stig, kaldast í innsveitum fyrir norðan.
Suðaustan 13-18 m/s á morgun með slyddu eða snjókomu sunnan- og vestanlands, en síðar rigningu með köflum á láglendi. Hlýnar í veðri, hiti 1 til 5 stig síðdegis. Hægari vindur og yfirleitt þurrt á Norður- og Austurlandi með minnkandi frosti á þeim slóðum.
Á þriðjudag:
Suðvestlæg átt 8-15 m/s. Rigning eða slydda um tíma í flestum landshlutum og hiti 0 til 5 stig, en slydda eða snjókoma norðvestantil og heldur svalara.
Á miðvikudag:
Suðaustan og síðar norðaustan 8-15 m/s. Rigning eða slydda sunnan- og austanlands og hiti 0 til 5 stig. Annars yfirleitt úrkomulítið og svalara, en fer að snjóa norðanlands um kvöldið.
Á fimmtudag:
Breytileg átt 5-13 m/s og úrkomulítið, en gengur í austan hvassviðri með talsverðri slyddu eða rigningu um kvöldið, en snjókomu norðvestantil. Hiti breytist lítið.
Á föstudag:
Útlit fyrir suðvestan hvassviðri með éljum og kólnandi veðri.
Á laugardag:
Líkur á vaxandi suðaustanátt með slyddu eða rigningu og hlýnandi veðri.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.