Erlent

Fyrrverandi ráðgjafi stefnir Bandaríkjaforseta vegna árása eftir bókarskrif

Kjartan Kjartansson skrifar
Sims (t.v.) í spjallþætti Stephens Colbert þegar hann kynnti bók sína Nöðruliðið í lok janúar.
Sims (t.v.) í spjallþætti Stephens Colbert þegar hann kynnti bók sína Nöðruliðið í lok janúar. Vísir/Getty

Cliff Sims, fyrrrverandi starfsmaður á samskiptasviði Hvíta hússins, hefur stefnt Donald Trump Bandaríkjaforseta fyrir hafa notað forsetaframboð sitt til þess að reyna að refsa honum fyrir bók með vandræðalegum uppljóstrunum um lífið í Hvíta húsinu.

Lögmenn framboðs Trump halda því fram að Sims hafi brotið gegn þagnarskyldu sem hann gekkst undir sem starfsmaður þess með bókinni „Nöðruliðið“ sem kom út á dögunum. Bókin fjallaði um reynslu Sims í Hvíta húsinu. Trump lýsti Sims sem „lágt settum starfsmanni sem ég þekkti varla“ og „framagosa“.

Stefna Sims beinist að Trump í opinberu embætti sínu sem forseti, að sögn Washington Post. Mark Zaid, lögmaður Sims, segir að framboðið sé að reyna að nota þagnarsamninginn við framboðið til að refsa honum fyrir að ræða um tímann í Hvíta húsinu.

Trump er sakaður um að láta framboðið ganga í stað alríkisstjórnarinnar á ólögmætan hátt til að reyna að þagga niður í Sims og svipta hann stjórnarskrárvörðu tjáningarfrelsi. Ríkisstjórn Trump sé þannig að nota einkaaðila til þess að refsa fyrrverandi alríkisstarfsmanni fyrir að upplýsa um hluti sem leynd ríkti ekki yfir í Hvíta húsinu.

Ólíklegt að hægt verði að framfylgja þagnarsamningum í Hvíta húsinu

Áður hefur verið greint frá því að Trump hafi látið starfsmenn Hvíta hússins skrifa undir þagnarsamninga um að greina ekki frá því sem þeir verða áskynja þar. Verulegur vafi eru sagður leika á hvort að slíkir samningar gætu haft lagalegt gildi fyrir opinbera starfsmenn.

Sims segist ekki muna hvort hann skrifaði undir slíkan samning þegar hann hóf störf í Hvíta húsinu en hann gangi út frá því að svo hafi verið. New York Times segir að í stefnunni komi fram að Trump virðist aðeins framfylgja þagnarsamningunum í sumum tilfellum. Þannig hafi hann ekki gert athugasemdir við bækur þriggja fyrrverandi starfsmanna sem fóru lofsamlegum orðum um hann.

Bók Sims dró upp svipaða mynd af glundroða innan veggja Hvíta hússins og hefur birst í fréttum bandarískra fjölmiðla undanfarin ár. Rekur hans deilur og bellibrögð starfsmanna Hvíta hússins, meðal annars gegn hver öðrum.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.