Erlent

Yfir þúsund manns skotmarkið í nýjustu herferð Tyrklandsstjórnar eftir valdaránstilraun

Kjartan Kjartansson skrifar
Erdogan forseti (2.f.h.) hefur verið sakaður um að nota valdaránstilraunina fyrir rúmum tveimur árum sem átyllu til að brjóta á bak aftur allt andóf gegn sér í landinu.
Erdogan forseti (2.f.h.) hefur verið sakaður um að nota valdaránstilraunina fyrir rúmum tveimur árum sem átyllu til að brjóta á bak aftur allt andóf gegn sér í landinu. Vísir/EPA

Tyrknesk yfirvöld hafa gefið út handtökuskipanir á hendur 1.112 manns sem þau saka um að hafa stutt valdaránstilraun árið 2016 sem þau segja að klerkur í Bandaríkjunum hafi skipulagt. Handtökurnar nú eru sagðar tengjast meintu svindli á lögregluprófi.

Rúmlega 250 manns féllu í valdaránstilrauninni árið 2016. Fethullah Gulen, klerkur sem var eitt sinn bandamaður Receps Erdogan forseta, hefur neitað því að átt þátt í henni. Gulen hefur verið í sjálfskipaðri útlegð í Bandaríkjunum frá 1999.

Reuters-fréttastofan segir að handtökurnar nú tengist ásökunum um að einhverjir þeirra sem tóku próf til að verða aðstoðarlögregluvarðstjórar árið 2010 hafi fengið spurningarnar fyrir fram. Rúmlega 120 manns hafi þegar verið handteknir. Ekki er ljóst hversu margir þeirra eru starfandi lögreglumenn.

Eftir valdaránstilraunina hefur ríkisstjórn Erdogan staðið fyrir víðtækum hreinsunum á ríkisstarfsmönnum og saksóknarar hafa elt uppi meinta stuðningsmenn Gulen í landinu. Vestræn ríki hafa gagnrýnt framferði tyrkneskra stjórnvalda og sakað Erdogan um að nota valdaránstilraunina sem átylla til að berja niður allt andóf gegn sér.

Fleiri en 77.000 manns hafa verið handteknir í aðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna valdaránstilraunarinnar og um 150.000 ríkisstarfsmenn hafa verið reknir eða sendir í leyfi. Þá hefur ríkið lagt hald á hundruð fyrirtækja sem það segir tengjast Gulen og lokað fleiri en 130 fjölmiðlum.


Tengdar fréttir

Erdogan segir MDE elska hryðjuverk

Flokka mætti úrskurð Mannréttindadómstóls Evrópu um að Tyrkir verði að leysa Selahattin Demirtas, fyrrverandi leiðtoga Kúrdaflokksins HDP, úr haldi undir stuðning við hryðjuverk.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.