Fótbolti

Síle bætist í hópinn fyrir suðurameríska HM 2030 framboðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luis Suarez og Lionel Messi auglýsa suðurameríska framboðið fyrir HM 2030.
Luis Suarez og Lionel Messi auglýsa suðurameríska framboðið fyrir HM 2030. Getty/Sandro Pereyra
Það eru talsverðar líkur á því að HM í fótbolta árið 2030 verði haldið í Suður-Ameríku. Síle hefur nú bæst í hópinn með Argentínu, Paragvæ og Úrúgvæ sem vilja fá að halda keppnina öll saman.

Heimsmeistaramótið 2030 verður afmælismót því þá verða liðin hundrað ár frá fyrstu heimsmeistarakeppninni sem fram fór í Úrúgvæ árið 1930. Úrúgvæ vann þá heimsmeistaratitilinn eftir sigur á Argentínu í úrslitaleiknum.

Þessi suðurameríska HM hefur verið lengi í bígerð og var gert opinbert árið 2017 en það er eins og framboðið hafi talið sig þurfa að fá Síle með í hópinn þegar fréttist af mögulegu sameiginlegu mótframboði frá Bretlandi og Írlandi.

England, Skotland, Wales, Norður-Írland og Írland hafa sýnt því áhuga á að halda saman heimsmeistaramót en hvort það verður 2030 eða 2034 er önnur saga.  

Það var forseti Síle, Sebastian Pinera, sem tilkynnti það á Twitter að Síle hefði bæst í hópinn. „Fyrir nokkrum mánuðum þá lagði ég það til við forseta Argentínu, Úrúgvæ og Paragvæ að taka inn Síle og leggja fram sameiginlegt framboð fyrir HM 2030,“ skrifaði Sebastian Pinera á Twitter.

Frá og með HM 2026, sem fer fram í Bandaríkjunum, Mexíkó og Kanada, þá verða 48 þjóðir í úrslitakeppni HM og keppnin hefur því stækkað mikið frá þeirri 32 þjóða keppni sem fór fram í Rússlandi síðasta sumar.

Síle hélt HM 1962 og HM 1978 fór fram í Argentínu. HM hefur aftur á móti aldrei farið fram í Paragvæ. Síðasta HM í fótbolta í Suður-Ameríku fór fram í Brasilíu 2014.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.