Innlent

Stilltu sér upp við hlið Bergþórs með „Fokk ofbeldi“ húfur

Birgir Olgeirsson og Margrét Helga Erlingsdóttir skrifa

Þegar Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins og formaður umhverfis-og samgöngunefndar Alþingis, steig upp í pontu til ræða um samgönguáætlun til fimm ára tóku tveir þingmenn Pírata sér stöðu við hlið hans og skörtuðu „Fokk ofbeldi“ húfur sem að sögn Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur voru þögul mótmæli.

Þórhildur Sunna og Björn Leví Gunnarsson gengu að Bergþóri þegar hann hóf mál sitt. Þingmennirnir stöldruðu ekki lengi við, stilltu sér upp við hlið hans örsnöggt og gengu síðan í burtu. Bergþór brást ekki með neinu móti við uppákomunni.

Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, segist hafa upplifað samtal Klaustursþingmannanna um hana sjálfa sem árás. Hún sagði þá jafnframt vera ofbeldismenn í viðtali í Kastljósi í byrjun desember.

Fokk ofbeldi húfurnar eru hannaðar fyrir UN Women á Íslandi en með því að kaupa húfurnar eru verkefni samtakanna styrkt.

Þingmaður Miðflokksins sagði mótmælin ósmekkleg

Þórhildur Sunna segir í samtali við Vísi að viðbrögðin við þessu uppátæki hefðu verið blendin í þingsal. Sigurður Páll Jónsson, þingmaður Miðflokksins, kallaði á eftir þeim að honum þætti þessi uppákoma ekki smekkleg.

„En okkur greinir á hvað er smekklegt og hvað ekki,“ segir Þórhildur Sunna.

Aðspurð svarar hún að þau hefðu ákveðið að gera þetta þegar þau sáu fyrr í dag að Bergþór væri á mælendaskrá Alþingis. Um hafi verið að ræða þögul mótmæli.

Þórhildur segir að þessi mótmæli segi sig nokkuð sjálf þegar hún er spurð hverju var verið að mótmæla.

„Bergþór Ólason er enn þá formaður umhverfis- og samgöngunefndar,“ segir hún.Sara Óskarsson var viðstödd á Alþingi í dag.

Sara Óskarsson varaþingmaður Pírata skrifar á Facebook  að hún hafi svarað Sigurði Páli því til að réttast væri að „láta skömmina vera þar sem hún á heima, hjá þingmanninum í ræðustól.“

Sara segir að Sigurður hefði svarað um hæl að þingmennirnir kynnu enga mannasiði.

„Kunnum VIÐ enga mannasiði?“ á Sara þá að hafa sagt og minnt hann á orð sem Bergþór Ólason lét falla á Klausturbar.

„Það er vont að sitja í þingsal með mönnum sem enga iðrun hafa sýnt gagnvart þeirri kvenfyrirlitningu og níði sem þeir sýndu samstarfsfólki sínu, ásamt fjöldanum öllum af minnihlutahópum á Klaustursupptökunum svokölluðu,“ skrifar Sara sem bætir við að það sé líka vont þegar menn sjái ekki sóma sinn í að segja af sér.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.