Innlent

Hringvegurinn opinn og frystir aftur í kvöld

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Það kólnar aftur í kvöld, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands.
Það kólnar aftur í kvöld, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands. Vísir/vilhelm

Hellisheiðin var opnuð í nótt eftir að hún hafði verið lokuð frá því síðdegis í gær en þar er hálka samkvæmt heimasíðu Vegargerðarinnar. Þá var hringvegurinn milli Hvolsvallar og Víkur opnaður á ný í morgun. Í dag ræður hvöss norðaustanátt ríkjum og veður fer kólnandi í kvöld.

Vegum var víða lokað í gær vegna óveðurs en vegurinn um Þrengsli er nú einnig opinn og sömu sögu er að segja af Mosfellsheiði. Vegurinn um Öræfi milli Gígjukvíslar og Jökulsárlóns hefur einnig verið opnaður.

Á Lyngdalsheiði og Þingvallavegi er þó enn lokað en unnið er að mokstri. Nánari upplýsingar um færð á vegum má nálgast á vef Vegagerðarinnar.

Frystir í kvöld

Í dag má svo búast við norðaustanátt, víða 13-20 m/s, að því er fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands. Búast má við snjókomu eða éljum, einkum um landið austanvert, en þurrt að kalla suðvestanlands. Þá kólnar með deginum en frost verður frá 0 til 5 stigum í kvöld.

Á morgun verður áfram norðaustanátt 8-15 m/s og él fyrir norðan og austan en léttskýjað suðvestanlands. Frost verður 0 til 8 stig. Svipað veður verður áfram á föstudag og laugardag en á sunnudag gengur norðanáttin líklega niður.
 

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á fimmtudag og föstudag:
Norðaustan 8-15 m/s og él, en léttskýjað SV-til á landinu. Frost 0 til 8 stig og heldur kaldara á föstudag. 

Á laugardag:
Norðan 10-18, skýjað og snjókoma eða él N- og A-lands. Kalt áfram. 

Á sunnudag:
Minnkandi norðanátt og léttskýjað á S- og V-landi, en stöku él NA-lands. Talsvert frost. 

Á mánudag:
Vaxandi suðaustanátt SV-til á landinu, fer að snjóa undir kvöld og dregur úr frosti. Hægari vindur N- og A-lands, þurrt og áfram kalt í veðri. 

Á þriðjudag:
Suðlæg átt og rigning eða slydda, hiti 0 til 5 stig.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.