Innlent

Bjarni Siguróli í 11. sæti í einni virtustu matreiðslukeppni heims

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá keppninni.
Frá keppninni. Mynd/Þráinn Freyr Vigfússon

Bjarni Siguróli Jakobsson hafnaði í 11. sæti í Bocuse d'Or, heimsmeistarakeppni einstaklinga í matreiðslu, sem haldin var í Lyon í Frakklandi dagana 29.-30. janúar, að því er fram kemur í tilkynningu. Úrslitin voru tilkynnt í dag klukkan 18:30 að íslenskum tíma en 24 þjóðir kepptu til úrslita eftir að hafa farið í gegnum undankeppnir í sínum heimsálfum.

Í tilkynningu segir að Bocuse d'Or sé ein virtasta matreiðslukeppni heims og þátttakendur meðal fremstu matreiðslumanna sinna landa. Keppnin sé því hörð og miklar kröfur gerðar til keppenda. Þjálfari Bjarna er Viktor Örn Andrésson, bronshafi og Bocuse d'Or keppandi 2017, og aðstoðarmaður er Ísak Þorsteinsson.

„Bjarni Siguróli hafði fimm og hálfa klukkustund til þess að matreiða forrétt og kjötrétt fyrir tuttugu dómara. Afraksturinn var sannkallað listaverk og var annars vegar borinn fram á fallegum viðarplötum og hins vegar á glæsilegu silfurfati. Allt gekk samkvæmt áætlun og voru Bjarni, Ísak aðstoðarmaður hans og Viktor þjálfari  að vonum hæstánægðir með úrslitin," segir í tilkynningu.

Keppnin Bocuse d‘Or hefur verið haldin síðan 1987 en fyrsti íslenski keppandinn tók þátt árið 1999. Síðan þá hafa Íslendingar ávallt verið í níu efstu sætunum en bestum árangri náði Hákon Már Örvarsson árið 2001 og Viktor Örn Andrésson árið 2017, sem báðir nældu í bronsverðlaun.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.