Innlent

Fullyrðingar Gunnars Braga um minnisleysi dregnar í efa

Kjartan Kjartansson skrifar
Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, mætti á sinn fyrsta þingfund frá því að Klaustursmálið kom upp í gær.
Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, mætti á sinn fyrsta þingfund frá því að Klaustursmálið kom upp í gær. Vísir/Vilhelm
Dagblaðið DV fullyrðir að Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, hafi farið með ósannindi í sjónvarpsviðtali í gær þegar hann hélt því fram að muna ekkert eftir atburðum á barnum Klaustri í nóvember. Blaðið birtir upptöku af viðtali við Gunnar Braga þar sem hann sagðist ítrekað muna eftir kvöldinu.

Í viðtali á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í gærkvöldi fullyrti Gunnar Bragi að hann hefði fallið í óminni um leið og hann kom inn á Klaustur þar sem upptökur náðust af honum og nokkrum öðrum þingmönnum Miðflokksins og Flokks fólksins hafa uppi gróf og óviðeigandi ummæli um stjórnmálakonur. Minnisleysið hafi varað í 36 klukkustundir.

„Það er algjört „blackout“. Algjört minnis­leysi. Ég hvorki veit hvað ég gerði, ég þurfti að hlusta á upp­tök­urn­ar, ég týndi föt­unum mínum þessa nótt. Það er algjört „blackout“.Það hefur ekki komið fyrir mig áður,“ sagði Gunnar Bragi á Hringbraut.

DV og Stundin sögðu fyrst frá Klaustursupptökunum á sínum tíma. Fyrrnefnda blaðið birti nú í kvöld aftur hluta af upptöku af viðtali sem blaðamaður þess tók við Gunnar Braga þegar hann var fyrst spurður út í ummælin á Klaustri. Þar sagðist Gunnar Bragi endurtekið muna eftir því sem þingmennirnir ræddu.

„Ég man bara að það flaug allur fjandinn þarna en þetta var mjög skemmtilegt hins vegar,“ sagði Gunnar Bragi við blaðamann DV í nóvember.

Gunnar Bragi svaraði ekki strax þegar Vísir reyndi að ná tali af honum nú í kvöld.


Tengdar fréttir

Þingflokksformenn funduðu vegna endurkomu Gunnars Braga og Bergþórs

Boðað var til þingflokksformannafundar á Alþingi klukkan 13 í dag vegna endurkomu þeirra Gunnars Braga Sveinssonar og Bergþórs Ólasonar, þingmanna Miðflokksins á þing en þeir höfðu verið í ótímabundnu leyfi frá þingstörfum vegna Klaustursmálsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×