Erlent

Metkuldi í vændum í miðvesturríkjum Bandaríkjanna

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Mikils snjóþunga og kulda hefur gætt víða í Bandaríkjunum, meðal annars í Chicago. Kuldinn hefur þó ekki náð hámarki.
Mikils snjóþunga og kulda hefur gætt víða í Bandaríkjunum, meðal annars í Chicago. Kuldinn hefur þó ekki náð hámarki. Erin Hooley/Getty
Búist er við metkulda í nokkrum ríkjum Bandaríkjanna í þessari viku. Gert er ráð fyrir að kuldinn fari alla leið niður í 54 gráður undir frostmarki.

Kuldastrókur frá norðurheimskautsbaugnum mun skella á miðvesturríkjum Bandaríkjanna um þessa viku miðja, samkvæmt veðurstofu Bandaríkjanna. Hitastig muni verða slíkt að kal eða ofkæling geti hlotist á nokkrum mínútum, hætti fólk sér út í kuldann.

Þá er gert ráð fyrir að á þó nokkrum stöðum verði kaldara en verið hefur í áratugi, eða jafnvel síðan mælingar hófust.

Waterloo í Iowa er einn þeirra staða, en þar mun kuldinn að öllum líkindum fara niður fyrir 36 gráður undir frostmarki á miðvikudag, sem er það lægsta sem mælst hefur á svæðinu.

Í Chicago í Illinois verður 25 ára gamalt kuldamet jafnað, gangi spáin eftir, en áætlað er að þar verði lofthitastig um 29 gráðum undir frostmarki, einnig á miðvikudag. „Borgin vindasama“ stendur þó undir nafni og mun vindkæling draga hitastigið niður undir 42 gráður fyrir neðan frostmark.

Ökumenn á svæðinu eru hvattir til þess að hafa meðferðis birgðir og útbúnað til þess að verjast kuldanum ef ske kynni að þeir kæmust ekki leiðar sinnar sökum veðurs. Þá eru íbúar svæðisins þar sem kuldinn verður hvað mestur minntir á að sjá til þess að nóg sé til af gasi og eldivið til upphitunar á heimilum þeirra.

Búið er að loka hundruðum skóla og opinberra stofnana vegna ástandsins, en snjóþungt hefur verið í miðvesturríkjunum og hefur meðal annars þurft að gera hlé á flugumferð frá nokkrum flugvöllum á svæðinu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×