Innlent

Hámarkshraði við einbreiðar brýr lækkaður

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Alls eru 423 einbreiðar brýr á vegum landsins, þessi er yfir Glerá.
Alls eru 423 einbreiðar brýr á vegum landsins, þessi er yfir Glerá. Vísir/Pjetur

Vegagerðin hefur ákveðið að lækka hámarkshraða í 50 kílómetra á klukkustund við allar einbreiðar brýr á þjóðvegum landsins, þar sem umferð er meira en 300 bílar á dag að jafnaði.

Ætla má að ákvörðunin sé tekin vegna manntjónsins sem varð við Núpsvötn í lok desember. Þar fór bíll yfir vegrið einbreiðrar brúar með þeim afleiðingum að þrír létust.

Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að um sé að ræða alls 75 einbreiðar brýr og þar af er um helmingur á hringveginum. Auk hraðalækkunarinnar verður viðvörunarskiltum breytt og bætt verður við undirmerkingum á ensku. Áætlað er að kostnaðurinn við merkingarnar nemi á bilinu 70 til 80 milljónum.

Þá hefur Vegagerðin jafnframt í hyggju að yfirfara hámarkshraða á þjóðvegum í dreifbýli. Verður það gert með það fyrir augum að lækka hámarkshraðann á köflum „reynist þess þörf,“ eða fjölga merkingum um leiðbeinandi hraða.

Að sama skapi ætlar Vegagerðin að ráðast í úttekt á vegriðum á öllum brúm á stofn- og tengivegum. „Lagfæringum verður forgangsraðað eftir ástandi brúnna og aðstæðum á hverjum stað eftir því sem svigrúm er í fjárheimildum,“ segir í tilkynningu og bætt við:

„Eftir sem áður gildir sú gullvæga regla að ávallt haga akstri eftir aðstæðum.“


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.