Innlent

Sakar Flokk fólksins um óeðlilega fjármálastjórn

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Karl Gauti Hjaltason, Inga Sæland og Ólafur Ísleifsson.
Karl Gauti Hjaltason, Inga Sæland og Ólafur Ísleifsson. Vísir

Karl Gauti Hjaltason óháður þingmaður sakar Ingu Sæland formann Flokks fólksins um óeðlilega fjármálastjórn í aðsendri grein sem birtist í Morgunblaðinu í morgun undir yfirskriftinni „Erilsamt ár að baki“.

Karl Gauti var einn af sex þingmönnum sem ræddu saman á Klausturbar í lok nóvember á síðasta ári en á barnum var farið ófögrum orðum um Ingu, leiðtoga flokksins. Upptaka af samræðunum var send á þrjá fjölmiðla til birtingar og í kjölfarið voru bæði Karl Gauti og Ólafur Ísleifsson reknir úr flokknum.

„Einhverjir hafa staldrað við ummæli mín við þetta tækifæri um hæfileika formanns Flokks fólksins til að leiða stjórnmálaflokk. Örskömmu síðar rak stjórn flokksins mig við annan mann úr flokknum,“ segir Karl Gauti í grein sinni.

Hann segist hafa viðhaft gagnrýni sína á Ingu margsinnis á síðasta ári og látið í ljós óánægju sína við hana sjálfa „meðal annars á vettvangi þingflokksins og í stjórn flokksins, þar sem ég var kjörinn með flestum atkvæðum allra stjórnmálamanna á landsfundi flokksins í september sl.“

Karl Gauti sakar formann flokksins um óeðlilega fjármálastjórn.

„Ég tel ekki forsvaranlegt að formaður stjórnmálaflokks sitji yfir fjárreiðum hans með því að vera jafnframt prókúruhafi og gjaldkeri flokksins. Þá get ég heldur ekki sætt mig við að opinberu fé sé varið til launagreiðslna í þágu nánustu fjölskyldumeðlima stjórnmálaleiðtoga,“ segir Karl Gauti.

Það liggur ekki fyrir að svo stöddu hvað Karl Gauti á við með ummælum sínum er varðar meintar launagreiðslur til fjölskyldumeðlima.

Hvorki náðist í Karl Gauta né Ingu Sæland við gerð þessarar fréttar.


Tengdar fréttir

Inga óttast ekki helmings fækkun í þingflokknum

Tveir þingmenn Flokks fólksins sem komu fram á Klaustursupptökunum voru reknir úr þingflokknum í dag. Þeir halda enn sæti sínu á þingi en forysta Flokks fólksins vill að þeir segi af sér.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.