Erlent

Íhuga að afnema styttri fangelsisdóma

Andri Eysteinsson skrifar
Frá London, höfuðborg Bretlands.
Frá London, höfuðborg Bretlands. Vísir/Andri Eysteinsson
Breska dómsmálaráðuneytið íhugar nú að afnema fangelsisdóma þar sem sakborningur er dæmdur til minna en sex mánaða fangelsisvistar. Þarlendir ráðamenn telja að samfélagsþjónusta sé betur til þess fallin að koma í veg fyrir frekari brot en skammtíma fangelsisvist. BBC greinir frá.

Fangelsismálastjóri Bretlands, Rory Stewart úr Íhaldsflokknum segir styttri fangelsisdóma „nógu langa til að valda skaða en ekki nógu langa til betrunar“.

Samkvæmt grein The Telegraph myndu aðgerðir sem þessar hafa i för með sér að um 30.000 afbrotamenn myndu á ári hverju sleppa við fangelsisvist. Þeir afbrotamenn eru flestir innbrots-, búðar- og/eða vasaþjófar.

Dómsmálaráðuneytið breska íhugar nú að banna dómstólum að dæma menn til fangelsisvistar til minna en sex mánaða, nema að um sé að ræða gróf ofbeldismál eða kynferðisbrot.

„Einhver fer í fangelsi í þrjár, fjórar vikur, þeir missa húsin sín, vinnuna, fjölskylduna og mannorðið. Almenningur er öruggari ef boðið er upp á góða samfélagsþjónustu auk þess að álag minnkar á fangelsin“, sagði fangelsismálastjórinn Rory Stewart við The Telegraph.

Samkvæmt BBC eru yfir 80.000 fangar í Englandi og Wales, yfir helmingur þeirra afplánar nú styttri fangelsisdóma.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.