Erlent

Gillibrand ætlar að sækjast eftir útnefningu demókrata

Kjartan Kjartansson skrifar
Gillibrand hefur verið einarður andstæðingur Trump forseta og greitt atkvæði gegn stefnumálum hans oftar í þinginu en flestir aðrir demókratar.
Gillibrand hefur verið einarður andstæðingur Trump forseta og greitt atkvæði gegn stefnumálum hans oftar í þinginu en flestir aðrir demókratar. Vísir/EPA
Öldungadeildarþingkonan Kirsten Gillibrand frá frá New York segist ætla að bjóða sig fram í forvali Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar sem fara fram í Bandaríkjunum á næsta ári. Nokkrir aðrir demókratar hafa þegar tilkynnt um framboð og búist er við því að fleiri bætist í hópinn á næstu misserum.

Gillibrand tilkynnti um fyrirætlanir sínar um að stofna undirbúningsnefnd fyrir forsetaframboð í viðtali hjá spjallþáttastjórnandanum Stephen Colbert í gær. Sagðist hún telja að hún hefði „samúðina, hugrekkið og óttalausa áræðni“ sem þarf til að berjast um embætti forseta Bandaríkjanna, að sögn Washington Post.

Málefni kynjanna eru Gillibrand, sem er 52 ára gömul, ofarlega í huga. Hún er þekkt fyrir baráttu gegn kynferðisofbeldi í hernum og í háskólum. Hún hefur jafnframt var framarlega í flokki þeirra sem tala fyrir því að samkynhneigðir í hernum þurfi ekki að leyna kynhneigð sinni.

„Ég ætla að bjóða mig fram til forseta Bandaríkjanna, vegna þess að sem ung móðir, ætla ég að berjast fyrir börn annars fólks af jafnmikilli hörku og ég gerði fyrir mín eigin,“ sagði Gillibrand sem telur að heilsugæsla ætti að vera réttur en ekki forréttindi í Bandaríkjunum.

Fyrir hafa nokkrir aðrir demókratar tilkynnt um framboð, þar á meðal Elizabeth Warren, öldungadeildarþingmaður flokksins frá Massachusetts, og Julián Castro, fyrrverandi húsnæðismálaráðherra í tíð Baracks Obama.

Fastlega er gert ráð fyrir að fleiri bætist í hópinn. Þar hafa nöfn Bernie Sanders, sem bauð sig fram gegn Hillary Clinton árið 2016, Joe Biden, varaforseta Obama, og Beto O‘Rourke, fyrrverandi fulltrúadeildarþingmanns frá Texas, borið hæst.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×