Erlent

Trump og Kim funda í annað skiptið

Andri Eysteinsson skrifar
Fundur Kim og Trump í júní var sögulegur enda í fyrsta skipti sem forseti Bandaríkjanna og leiðtogi Norður-Kóreu hittust.
Fundur Kim og Trump í júní var sögulegur enda í fyrsta skipti sem forseti Bandaríkjanna og leiðtogi Norður-Kóreu hittust. AP/Susan Walsh
Hvíta húsið greindi frá því í kvöld að Bandaríkjaforseti, Donald Trump, hygðist funda að nýju með leiðtoga Norður-Kóreu, Kim Jong Un í lok næsta mánaðar. Greint var frá fundinum eftir fund Trump með sendiboða Norður-Kóreu. AP greinir frá.

Talskona Hvíta hússins, Sarah Sanders, sagði við fjölmiðla að forsetinn hafi fundað með Kim Yong Chol í  um níutíu mínútur um skipulagningu fundar leiðtoganna og um kjarnorkumál.

Sanders sagði forsetann spenntan fyrir fundinum en tilkynnt verður um nákvæma staðsetningu og dagsetningu fundarins síðar. Samkvæmt frétt BBC um fundarhöld sendiboða Norður Kóreu við ráðamenn í Washington D.C. er Asíuríkið Víetnam nefnt í þessu samhengi. En samkvæmt frétt BBC er gert ráð fyrir heimsókn Kim Jong Un þangað í febrúar. 

Trump og Kim funduðu fyrst í Singapúr í júní síðastliðnum. Talið er að litlu hafi verið áorkað á þeim fundi en nú er stefnt að frekari viðræðum um afvopnun Norður-Kóreu sem búa yfir töluverðu magni af kjarnorkuvopnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×