Innlent

Ekki samið um þinglok í dag

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Atkvæðagreiðsla stendur nú yfir á Alþingi en myndin er tekin á fundi í morgun þegar einnig var verið að greiða atkvæði.
Atkvæðagreiðsla stendur nú yfir á Alþingi en myndin er tekin á fundi í morgun þegar einnig var verið að greiða atkvæði. vísir/vilhelm
Samkomulag um þinglok mun ekki nást í dag samkvæmt heimildum fréttastofu.

Þingfundur er nú í gangi og er verið að greiða atkvæði um þau mál sem voru á dagskrá fyrr í dag. Þingfundi mun svo verða frestað fram yfir helgi.

Allt stefndi í að samið yrði um þinglok í gær en samningaviðræðurnar sigldu í strand þegar Sjálfstæðismenn höfnuðu drögum að samkomulagi við Miðflokkinn.

Ástæðan er vantraust Sjálfstæðismanna í garð Miðflokksins sem treysta því ekki að flokkurinn muni standa við samkomulag ef og þegar af því verður.

Samkvæmt drögunum sem lágu fyrir í gær átti að fresta umræðum um þriðja orkupakkann til síðsumars og átti þá taka nokkra daga í málið.

Kveðið var á um skipun fimm manna sérfræðingahóps í tengslum við afgreiðslu á þriðja orkupakkanum.

Samkvæmt heimildum Vísis þótti Sjálfstæðismönnum ýmislegt of óljóst varðandi skipun hópsins, til dæmis það hvernig skipa ætti í hann, hvað viðfangsefni hans ætti að vera og hvað gera ætti við niðurstöðurnar.

Vildi þingflokkur Sjálfstæðisflokksins skýra betur orðalag í samkomulaginu og negla fastar niður það sem verið væri að semja um.

Óformleg samtöl hafa verið í dag um hvernig ljúka megi þingi en þær engum árangri skilað. Þingi mun því ekki ljúka á morgun eins og stefnt hafði verið að í gær heldur mun þingið halda áfram fram í næstu viku. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×