Innlent

Segir laxeldi stærsta tækifærið til að snúa við byggðaþróun á Vestfjörðum

Kristján Már Unnarsson skrifar
Einar K. Guðfinnsson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, er núna talsmaður fiskeldisfyrirtækjanna.
Einar K. Guðfinnsson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, er núna talsmaður fiskeldisfyrirtækjanna. Stöð 2/Sigurjón Ólason.
Fiskeldi hefur tekið við af hefðbundnum sjávarútvegi sem stærsta atvinnugreinin á Tálknafirði. Helsti forystumaður Vestfirðinga um árabil segir laxeldið stærsta tækifæri fjórðungsins til að snúa við neikvæðri byggðaþróun. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2. 

Tálknfirðingar urðu fyrir miklu áfalli fyrir fjórum árum þegar fiskvinnslu Þórsbergs var lokað en í framhaldinu fækkaði íbúum um sextíu manns. En smámsaman hefur samfélagið á Tálknafirði verið að ná vopnum sínum á ný, nú síðast með opnun seiðaeldisstöðar Arctic Fish í botni fjarðarins.

Frá Tálknafirði. Fremst sést í eldisstöð Tungusilungs.Stöð 2/Sigurjón Ólason.
Seiðaeldisstöðin er gott dæmi um þá umbreytingu sem orðin er atvinnulífi í þessu 250 manna byggðarlagi. Núna er það ekki frystihúsið sem er stærsti vinnuveitandinn heldur fiskeldisstöðin. 

Þau eru raunar þrjú, fiskeldisfyrirtækin á Tálknafirði; Arnarlax, Artic Fish og Tungusilungur, og áætlar sveitarstjórinn að starfsmannafjöldi þeirra sem tengjast fiskeldi í sveitarfélaginu nálgist núna eitthundrað manns.

Bryndís Sigurðardóttir, sveitarstjóri Tálknafjarðar.Stöð 2/Sigurjón Ólason.
„Þetta er bara nýja „thingið“ okkar. Við ætlum að vera í þessu, nýta okkar bláu akra og framleiða góðan mat,“ segir Bryndís Sigurðardóttir, sveitarstjóri Tálknafjarðar. 

Fjárfesting Arctic Fish í seiðaeldisstöðinni nemur hartnær fjórum milljörðum króna en hún var formlega opnuð með viðhöfn síðastliðinn föstudag. 

Sjá hér: Tálknfirðingar fögnuðu opnun seiðaeldisstöðvar Arctic Fish 

„Þetta er stór vinnustaður hér, í rauninni stærsta fyrirtækið orðið hérna í atvinnurekstri á þessu svæði,“ segir Sigurður Pétursson, framkvæmdastjóri hjá Arctic Fish.

Sigurður Pétursson, framkvæmdastjóri hjá Arctic Fish.Stöð 2/Sigurjón Ólason.
Og það er stefnt á enn stærri stöð. Sigurður segir Arctic Fish með byggingaráform um að bæta við einu húsi í viðbót. 

Einar K. Guðfinnsson var áður ráðherra og þingmaður kjördæmisins þegar stöðugt hallaði undan fæti en er núna talsmaður fiskeldisfyrirtækjanna. 

„Þetta er auðvitað okkar stærsta tækifæri í atvinnumálum sem við höfum séð um margra áratuga skeið. Og þetta er þegar farið að skila miklum árangri og farið að snúa við byggðaþróuninni þar sem hún hefur verið neikvæð undanfarna áratugi,“ segir Einar K. Guðfinnsson. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

Uppsagnir á Tálknafirði reiðarslag fyrir samfélagið

„Fólk er að taka þessu mjög illa en marga grunaði að það væri eitthvað í gangi,“ segir einn þeirra 26 starfsmanna sem sagt var upp störfum hjá sjávarútvegsfyrirtækinu Þórsbergi á Tálknafirði í fyrradag.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.