Erlent

Sala sendi skilaboð úr flugvélinni og sagðist hræddur

Gunnar Reynir Valþórsson og Samúel Karl Ólason skrifa
Emiliano Sala hefur verið saknað frá því á mánudagskvöldið.
Emiliano Sala hefur verið saknað frá því á mánudagskvöldið. AP/Ben Birchall
Leit að flugvélinni sem hvarf yfir Ermarsundi í fyrradag var haldið áfram í morgun. Um borð var nýráðinn knattspyrnumaður hjá Cardiff City, Emiliano Sala, en um litla vél var að ræða. Auk Sala er flugmanni vélarinnar saknað.

Sala er tuttugu og átta ára gamall Argentínumaður og miðlar í Argentínu segja að hann hafi sent fjölskyldu sinni skilaboð í gegnum Whatsapp forritið skömmu áður en vélin hvarf.

Þar sagðist hann vera logandi hræddur, enda væri eins og vélin væri að detta í sundur. Áhafnir fimm flugvéla og tveggja björgunarskipa frá Frakklandi og Bretlandi hafa leitað á eitt þúsund fermílna svæði að vélinni, en enn sem komið er hefur leitin engan árangur borið.

BBC hefur eftir John Fitzgerald, yfirmanni leitarsveita Breta á Ermarsundi að lítil von sé um að finna Sala og flugmanninn á lífi.

„Ég held að jafnvel hinn hraustasti aðili myndi ekki endast lengur í sjónum en í nokkrar klukkustundir. Á þessum árstíma eru aðstæðurnar þarna út frekar hræðilegar ef þú lendir í sjónum.“

Nú í morgun gaf lögreglan í Guernsey, sem heldur utan um leitina, út að hún byggi á fjórum kenningum:

Að flugvélinni hafi verið lent og Sala of flugmaðurinn gætu ekki náð samskiptum við umheiminn.

Að þeir hafi lent á Ermarsundi, skip hefði komið þeim til bjargar og þeir gætu ekki náð samskiptum við umheiminn.

Að þeir hafi lent á Ermarsundi og komist í björgunarbát sem var um borð í flugvélinni.

Að flugvélin hafi hrapað í Ermarsundið og Sala og flugmaðurinn hafi farist.

Enn sem komið er áhersla lögð á þriðju kenninguna. Að þeir hafi komist um borð í björgunarbát.

Cardiff City var nýbúið að ganga frá kaupunum á Emiliano Sala frá franska félaginu Nantes og hann var dýrasti leikmaðurinn í sögu félagsins. Emiliano Sala kom til Cardiff um helgina og gekk frá öllu en snéri svo aftur til Nantes til að ganga frá lausum endum og kveðja liðsfélaga sína í Nantes.

Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, spilar einnig fyrir Cardiff. Þá spilar Kolbeinn Sigþórsson í Nantes.

Hér má sjá síðasta tíst Sala frá því á mánudagskvöldið þegar hann kvaddi liðsfélaga sína í Nantes.


Tengdar fréttir

Leikmaður Cardiff í flugvél sem hrapaði í Ermarsund

Lítil farþegaflugvél sem verið var að fljúga frá Nantes í Frakklandi til Cardiff í Bretlandi er sögð hafa hrapað yfir Ermarsundi í gærkvöldi. Emiliano Sala, nýr leikmaður Cardiff City, var um borð í flugvélinni.

Flugvél Sala enn ófundin

Leit að flugvél sem átti að ferja knattspyrnumanninn Emiliano Sala til velsku borgarinnar Cardiff og hvarf yfir Ermarsundi á mánudagskvöld bar engan árangur í gær og var hlé gert á sjöunda tímanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×