Erlent

Trump segir að það séu þing­konurnar sem eigi að biðjast af­sökunar á um­mælum sínum

Eiður Þór Árnason skrifar
Þingkonurnar fjórar sem um ræðir tilheyra allar minnihlutahópum.
Þingkonurnar fjórar sem um ræðir tilheyra allar minnihlutahópum. Vísir/AP
Donald Trump Bandaríkjaforseti, sem hefur undanfarna daga farið ófögrum orðum um fjórar þingkonur Demókrataflokksins, segir að það séu þær sem eigi að biðjast afsökunar á ummælum sínum.

„Ég trúi því ekki að þingkonurnar fjórar séu þess megnugar að geta elskað landið okkar. Þær ættu að biðja Bandaríkin (og Ísrael) afsökunar vegna þeirra hræðilegu (og hatursfullu) hluta sem þær hafa sagt,“ sagði Trump í tísti sínu fyrr í dag.

Trump vakti mikla reiði fyrir viku síðan þegar hann tísti um að fjórar þingkonur Demókrataflokksins ættu að „fara aftur þangað sem þær komu frá upprunalega“ þrátt fyrir að þær séu allar bandarískir ríkisborgarar og þrjár þeirra séu fæddar í Bandaríkjunum.

Forsetinn hefur síðan tvíeflt árásir sínar á þingkonurnar sem hann sakar um að hata Bandaríkin og gyðinga.

Þingkonurnar sem um ræðir hafa verið mjög gagnrýnar á gjörðir Trumps í embætti, en ekki síður á störf sinnar eigin flokksforystu.

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings, þar sem Demókratar eru nú í meirihluta, samþykkti ályktun á þriðjudag þar sem „kynþáttahatursfull ummæli“ forsetans voru sterklega fordæmd.


Tengdar fréttir

Áhyggjur af öryggi Omar

Demókratar sem sækjast eftir útnefningu flokksins til forsetaframboðs sem og aðrir kjörnir fulltrúar flokksins fordæmdu harkalega í gær hátterni þeirra sem sóttu fjöldafund Donalds Trump forseta í Norður-Karólínu í fyrrinótt.

Svaraði spurningu blaðamanns með því að spyrja um uppruna hans

Kellyanne Conway, einn nánasti ráðgjafi Bandaríkjaforseta, sat fyrir svörum á blaðamannfundi í gær. Þar reyndi hún meðal annars að svara fyrir tíst forsetans þar sem hann sagði fjórum bandarískum þingkonum að snúa aftur til meintra upprunalanda sinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×