Héraðssaksóknari gaf ákæruna út í sumar og málið verður tekið fyrir í héraðsdómi Vesturlands 30. október.
Engilbert er ákærður fyrir meiriháttar brot gegn skattalögum, bókhaldslögum og fyrir peningaþvætti. Hann er sakaður um að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti á sex mánaða tímabili á árunum 2017 og 2018. Samtals nema meint skattsvik tæpum 24 milljónum króna.
Engilbert hefur lengi verið nokkuð stórtækur á fasteignamarkaði. Hann var forstjóri verktakafyrirtækisins Innova ehf. sem var umsvifamikið fyrir hrun en var úrskurðað gjaldþrota árið 2010. Lítið fékkst greitt upp í kröfur sem námu um 1,2 milljörðum króna.
Nú síðast hefur hann verið í forsvari fyrir félagið Uppbyggingu ehf. sem hyggur á stórar framkvæmdir á Akranesi. Samkvæmt síðasta ársreikningi félagsins frá árinu 2017 er það í helmingseigu Engilberts og eiginkonu hans. Að sögn lögmanns Engilberts hefur eignarhaldinu hins vegar verið breytt og er félagið nú alfarið sagt í eigu eiginkonu hans.
Félagið hefur verið að byggja íbúðarhús og hyggur á framkvæmdir við 55 herbergja hótel við Kirkjubraut á Akranesi. Deiliskipulag fyrir lóðina hefur verið samþykkt og er hún tilbúin til framkvæmda. Þá stendur einnnig til að reisa verslunarkjarna við Smiðjuvelli. Um mikla uppbyggingu er að ræða og á framkvæmdin að kosta um fimm milljarða króna. Deiliskipulag fyrir reitinn hefur þó ekki verið samþykkt.
Í ákæru segir að að brotin hafi verið framin í sjálfstæðri atvinnustarfsemi og er hann sakaður um að hafa nýtt ávinning þeirra í þágu atvinnurekstrar og í eigin þágu. Engilbert vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað.