Leynir frá Garðshorni heitir þetta nýjasta ungstirni og hann gæti orðið áberandi nafn í íslenskum hrossaræktarbókum. Bærinn er á Þelamörk en þegar við komum heim á hlað til að heilsa upp á bændurna var Agnar Þór Magnússon í heyskap úti á túni meðan Birna Tryggvadóttir kenndi börnum á reiðnámskeiði.

En svo sýnir Birna okkur ungan graðfola sem hún sleppir inn í stóðhestagirðinguna og þeim sem horfa á frétt Stöðvar 2 er bent á að taka eftir ákafanum þegar hann hleypur í átt að hryssunum um leið og hann hneggjar.
„Þetta er nú svolítið skondin saga um þennan hest því að hann er sem sagt slysafang,“ segir Birna.

„Og hann stalst í hóp og við sprautuðum hryssuna. Sem sagt; folaldið átti ekki að verða til. En það var bara einhvern veginn þannig að það hefur einhver þarna uppi gripið inn í og hann varð bara til.“
Þau höfðu raunar ekki hugmynd um að mamman væri fylfull fyrr en folaldið var fætt út í túni. Þessvegna fékk það nafnið Leynir en þeim leist í fyrstu ekkert á þetta slysaskot.

„Þetta er allavega hæst dæmdi fjögurra vetra hesturinn í ár og einn af þeim hærri sem sýndir hafa verið,“ segir Agnar Þór.
„Þetta er magnaður hestur og vonandi framtíðarstjarna,“ segir hann.

„Og það er eiginlega dýrmætasti eiginleikinn. Því ef að það er ekki, þó svo að gangtegundirnar séu fyrir hendi, þá nýtast þær ekki. En hann er svo glaður og gangtegundirnar líka fyrir hendi þannig að þetta smellur allt alveg rosalega vel.“
Hér má sjá frétt Stöðvar 2.