Fótbolti

Vilja fjórar vatnspásur í leik í Afríkukeppninni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Salah veitir ekki af því að fá sér vatnssopa í hitanum í Egyptalandi þar sem Afríkukeppnin 2019 fer fram.
Salah veitir ekki af því að fá sér vatnssopa í hitanum í Egyptalandi þar sem Afríkukeppnin 2019 fer fram. vísir/getty
Leikmannasamtökin FIFPro vilja að fjögur hlé verði gerð á leikjum í Afríkukeppninni til að leikmenn geti fengið sér vatn eða aðra drykki og kælt sig niður.

Afríkukeppnin hefst í kvöld með leik heimaliðsins Egyptalands og Zimbabve í Kairó. Talið er að hitinn í Egyptalandi geti farið upp í 40 gráður á meðan leikjum í mótinu stendur.

„Heilsa og öryggi leikmannanna verður að ganga fyrir,“ segir í yfirlýsingu frá FIFPro. „Í leikjum þar sem hitinn fer yfir 34 gráður er mikil hætta á meiðslum.“

Knattspyrnusamband Afríku hefur lagt til að tvær vatnspásur verði gerðar í leikjum í Afríkukeppninni; á 30. og 70. mínútu. FIFPro vill hins vegar bæta við vatnpásum á 15. og 60. mínútu og þær verði því fjórar í heildina.

Á HM í Brasilíu fyrir fimm árum var í fyrsta sinn gert hlé að fyrirskipun FIFA til að leikmenn gætu kælt sig niður. Það var í leik Hollands og Mexíkó í 16-liða úrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×